fimmtudagur, júní 12, 2008

Sól sól skín á mig

“Það væri snjallt hjá þér að hætta snemma í dag og drífa þig heim á pallinn elskan mín” Þetta var sagt við mig í símann í gær þegar ég svaraði gsm hringingunni sem tilheyrði manninum mínum. “Ég kom við heima á leiðinni í Fljótshlíðina og það er brakandi sól og hiti á pallinum”, sagði hann. “Hvenær kemurðu tilbaka” spurði ég. “Ef þú ert að koma heim snemma þá reyni ég að drífa mig eins og ég get, annars liggur mér ekki eins á”. Kl fjögur sendi ég honum sms “Er að slökkva á tölvunni og fara heim, sjáumst á pallinum”. Hann hafði ekki ýkt neitt með notalegheitin á pallinum þessi elska. Það var algerlega himneskt að setjast út á pall með kaffisopann og góða bók.
Einn og einn geitungur hafði sérstakt dálæti á mér en ég ákvað að láta þá ekki hrekja mig inn.
Erling kom stuttu seinna enda hef ég þetta líka mikla aðdráttarafl á hann eða það hlýtur bara að vera, múahahahah

“Hvað ættum við að elda” spurði ég. “Nennirðu ekki bara að skjótast í Nóatún og athuga hvort þeir eigi ekki hrefnukjöt?” Þegar ég kom tilbaka með þetta líka fína hrefnukjöt var hann að sjóða kartöflur og búinn að gera sósu. Hrefnukjöt er mjög ódýr matur og hrikalega bragðgóður. Algert lostæti. Ef þið hafið ekki prófað þá hvet ég ykkur til að verða ykkur út um bita. Bara passið ykkur að steikja það þannig að það sé ekki gegnsteikt.

Eftir matinn settumst við aftur út á pallinn, það var svo heitt og notalegt og aftur var kaffibollinn hafður með í för. Erling var búinn að slá og graslyktin er svoooooo góð.
Kvöldið var frábært, árniðurinn er róandi og þrösturinn hóf upp rödd sína. Að þessu sinni kom enginn jarðskjálfti.

Já það er gott að búa hér í Húsinu við ána, allavega nýt ég þess í botn enda bý ég með svo frábæru fólki......Þangað til næst vinir mínir, njótið lífsins

Engin ummæli: