þriðjudagur, júní 03, 2008

Eins árs í dag prinsinn okkar....


“Mamma, geturðu nokkuð komið og sótt stelpurnar, ég held að litli kúturinn sé að fara að láta sjá sig”. Íris var í símanu og það var nú auðsótt mál að ná í dömurnar, það var svo heppilegt að þetta var á sunnudegi og við Erling og Hrund bara að hafa það notalegt hér í Húsinu við ána.

Ég brenndi í bæinn á löglegum hraða að sjálfsögðu og stuttu seinna vorum við aftur lagðar af stað yfir fjöllin tvö, ég og þær systur, Petra Rut og Katrín Tara.
Klukkan rúmlega sex, sunnudaginn 3. júní mætti svo prinsinn á svæðið. Íris hringdi og tilkynnti okkur það og mikið kom það okkur skemmtilega á óvart að þau skyldu velja honum fallega nafnið hans Erlings og bæta svo Elí við. Fæðingin gekk vel að mestu leyti og við drifum okkur í bæinn að sjá þau. Bara yndislegt og sérlega gaman að sjá viðbrögð þeirra systra þegar þær sáu litla bróðir sinn.

Það er ótrúlegt að það sé komið heilt ár síðan en í dag heldur Erling Elí upp á fyrsta afmælisdaginn sinn. Hann er algerlega ómótstæðilegur og heillar alla uppúr skónum. Hann verður örugglega prakkari og veiðimaður, enda á hann ekki langt að sækja það.
Hann var strax svo karlmannlegur og flottur gæi. Erling Elí er farinn að standa sjálfur og þess er örugglega ekki langt að bíða að hann fari að labba út um allt.

Elsku Erling Elí, ég óska þér innilega til hamingju með fyrsta afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa alla þína framtíð og vaka yfir hverju þínu spori. Ég elska þig endalaust.

1 ummæli:

Íris sagði...

Hann er svo sannarlega mikið gull þessi drengur og algjör hjartabræðari!
Takk fyrir fallega færslu um hann mamma!
Sjáumst amk á laugardaginn!
Þín Íris