sunnudagur, júní 08, 2008

Notalegheit á sunnudegi

Ég opnaði augun, var komin yfir í Erlings helming eins og venjulega um helgar, leit á klukkuna á náttborðinu hans og sá 11:26. Frábært, veit ekkert eins notalegt og að sofa út um helgar. Við ætluðum að fara í Kofann í gær eftir afmælið hans Erlings Elí en af ýmsum ástæðum ákváðum við að vera heima. Það er nú fátt sem jafnast á við notalegt kvöld hér í Húsinu við ána, það er helst notalegt kvöld í Kofanum okkar á Föðurlandi.

“Góða kvöldið” var sagt við mig þegar ég kom niður í hádeginu. Erling auðvitað löngu kominn á fætur og Hrund svaf uppi enda nýkomin heim af næturvakt.
Eftir kaffibolla og lestur blaða þá settumst við út á pall, spjölluðum saman og ákváðum svo að kíkja í Byko og athuga með kamínur ef við skyldum nú ákveða að fá okkur þannig grip í kofann. Jú, jú þarna var ein mjög fín sem okkur leist vel á og nú er bara að taka ákvörðun um hvort hún verður keypt núna eða seinna. Hins vegar var óska gasgrillið okkar á tilboði þar og við löngu búin að ákveða að kaupa nýtt grill og fara með það gamla austur í Kofann. Með grillið í skottinu héldum við heim á leið og kíktum til Tedda og Kötu og fengum okkur kaffisopa en stoppuðum stutt.

Ég var búinn að ákveða að drífa mig í að taka þvottahúsið og gestaherbergið í gegn um helgina en þar eru enn ummerki jarðskálftans. Það var lítið úr því vegna þess að Erling hvatti mig eindregið til að sitja úti og njóta góða veðursins enda færi draslið nú ekki langt. Ég hef því notið þess í dag að lesa skemmtilega bók, fylgjast með Erling setja saman nýja grillið og af og til settist hann hjá mér og fékk sér kaffisopa með mér.
Þegar samsetningu var lokið tók hann gamla grillið í sundur, þreif það allt upp og málaði þannig að það er orðið mjög flott og mun sóma sér vel á Föðurlandi og á örugglega eftir að þjóna okkur vel þar. Hrund vaknaði svo um fjögurleytið og kom og settist hjá mér og við spjölluðum saman. Nýja grillið var svo vígt með flottri steik í kvöldmatinn.

Nú er frábær dagur að kvöldi kominn, frábær heimadagur með öllum sínum sjarma og notalegheitum það er ekki svo lítið. Hrund er að fara á næturvakt aftur og mun vaka yfir skjólstæðingum sínum eins og henni einni er lagið. Ég hreinlega elska lífið sjálft og allt það góða sem Guð gefur okkur. Mátti til með að deila þessu með ykkur lesendur mínir, þangað til næst.......

Engin ummæli: