laugardagur, júní 07, 2008

Skrýtinn dagur....29.maí sl

Þar sem ég stóð inni á skrifstofunni við hliðina á minni og var að fara yfir pappíra með henni Ínu samstarfskonu minni, byrjaði húsið að rugga. Ekki hvarflaði það að mér á þeirri stundu að um leið og ég hallaði mér upp að veggnum og beið eftir að þessu lyki, væri heimili mitt að umturnast. Ég áttaði mig ekki á því alveg strax að þetta væri svona stór skjálfti á Suðurlandi en það tók mig samt ekki nema örstutta stund að fatta að sennilega hefði þetta verið Suðurlandsskjálfti. Á Mbl var fréttin strax komin, 6,1 á Richter sagði þar. Ég vissi ekki hvar Erling var en Hrund var að vinna á Sambýlinu og var því stödd á Selfossi en ég náði engu símasambandi við þau. Þú kemst ekki heim sagði samstarfsfólkið við mig því það er búið að loka veginum fyrir austan Hveragerði og brýrnar eru líka lokaðar. Þetta var vægast sagt óþægilegt, vissi ekkert hvernig Hrund hafði það eða hvar Erling var. Svo fóru að berast fréttir af skemmdum á Selfossi og Hveragerði, mikil eyðilegging alls staðar. Hvernig skyldi vera umhorfs heima hjá mér hugsaði ég og tilfinningin var skrýtin ekki get ég neitað því. Loksins náði ég í Erling og þá var hann staddur á Hvolsvelli og hafði ekki fundið skjálftann en var búinn að frétta af honum og var lagður af stað heim. Loksins náði ég í Hrund og það var allt í lagi með hana en þær voru bara tvær svona ungar á vakt á Sambýlinu, ekki náðist í forstöðukonuna því hún var komin í frí og auðvitað voru íbúarnir hræddir. Ég sagði þeim að fara út með fólkið og bíða og hringdi svo í lögregluna og lét vita af þeim og bað um að einhver væri sendur til þeirra að hjálpa þeim. Ég fékk far austur með Tedda bróður og við vorum alveg tilbúin að ganga restina ef við fengjum ekki að keyra alla leið heim.

Ég verð að viðurkenna að það var ónotatilfinning í mér alla leiðina heim. Fréttirnar boðuðu annan stóran skálfta og fólk beðið að halda sig utan dyra. Það vildi til hvað veðrið var gott þannig að í bili væsti ekki um fólk. Erling hringdi í mig þegar við vorum að verða komin austur, hann var þá kominn heim eftir að hafa beðið lengi við Þjórsárbrú eftir að umferð yrði hleypt á hana. Okkur Tedda var snúið frá Óseyrarbrú enda var ekki búið að meta hana. “Hvernig er heima?” spurði ég í símann “ Ja, nú er allavega tækifæri fyrir þig að kaupa þér nýja hluti og nóg er hilluplássið” sagði Erling, tilbúinn að slá á létta strengi. Húsið okkar er alveg heilt, enginn slasaður og það er frábært sagði hann en hins vegar allt á tjá og tundri og glerbrot útum allt.

Óneitanlega var skrýtið að koma heim og sjá svona mikið brotið og bramlað á heimili sínu, stórir þungir bókaskápar á hvolfi ásamt annari eyðileggingu, sjá hér og flettið aðeins niður á síðunni hans Erlings. Þó má segja að við sluppum vel miðað við marga. Það er samt merkilegt að stóri glerskápurinn í stofunni ásamt glerskápum í eldhúsinu sluppu alveg en aðrir hlutir sem voru við sömu veggi hrundu niður. Ég er ekkert smá fegin því þá er sparistellið okkar enn heilt ásamt öllum litlu bollunum sem ég hef safnað í gegnum tíðina.

Ég má til með að bæta því við að þegar við vorum búin að skoða heima fórum við útá Sambýlið til að athuga með hvernig Hrund gengi. Þar hittum við forstöðukonuna sem var yfirmaður hennar í fyrra en er nú starfsmaður á Svæðisskrifstofunni. Hún tjáði okkur að Hrund hefði staðið sig mjög vel og öll viðbrögð hennar til fyrirmyndar, fumlaus og örugg. Hún róaði íbúana og þegar við komum á staðinn þá stóðu skjólstæðingarnir þétt upp við hana og greinilegt að þeir fundu öryggi hjá henni.

Nú er kominn laugardagur og lífið óðum að færast í venjulegt horf hér á Selfossi. Þó greini ég enn beyg í mörgum og sumir, þar á meðal ég, eru vissir um að enn eigi eftir að koma stór skjálfti hjá okkur á næstu dögum Vonandi er það þó ekki rétt.
Þangað til næst.....njótum alls þess góða sem Guð leggur í veg okkar og þökkum honum varðveislu og náð.

1 ummæli:

Eygló sagði...

Já við skulum vona að það komi ekki annar svona stór eða stærri eins og þeir eru að spá! En gott að húsið ykkar skemmdist ekki og að enginn skyldi slasast!
Hafið það annars gott og við sjáumst vonandi sem fyrst :)
Þín blómstrandi Eygló