þriðjudagur, júní 17, 2008

17. júní

Frábær og notalegur dagur er að kvöldi kominn. Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga var haldinn hátíðlegur um allt land og veðrið lék við okkur hér á Selfossi og ég veit að það var líka gott verður í Hafnarfirði því 3 elstu dætur okkar voru þar með fjölskyldur sínar og bloggskrif þeirra Írisar og Eyglóar glöddu mig mikið. Þær eru svo miklar vinkonur og samrýmdar og einnig finnst mér gott hvað Hrund er líka í þeim hópi þótt hún sé yngst og búi enn heima.

Við Erling áttum notalegan heimadag hér í Húsinu við ána en Hrund var að vinna á Sambýlinu í dag. Sólin skein glatt á pallinum og ég sem ætlaði að vera svo dugleg að ljúka nú við tiltektir eftir skjálftann um daginn. Auðvitað var miklu nær að njóta sólarinnar því ekki myndi draslið hoppa á sínn stað af sjálfu sér og enginn hætta á öðru en það biði mín áfram. Teddi, Kata og Thea komu í heimsókn og við sátum úti í sólinni, borðuðum melónur og vínber og ræddum um landsins gagn og nauðsynjar. Bara notalegt. Hrund kom svo heim um kvöldmatarleytið og við grilluðum saman og Elva vinkona hennar kom í heimsókn og þær stöllur skruppu svo yfir til Theu.

Nú erum við Erling nýkomin inn úr löngum göngutúr í fallega bænum okkar. Við fórum yfir brúna og meðfram ánni hinum megin og það er hreint ótrúlegt hvað áin hefur mikið aðdráttarafl á okkur. Himininn skartaði sínum fegurstu litum og kyrrðin var eitthvað svo mögnuð. Aðeins heyrðist í fuglum og ánni.

Á morgun er svo nýr dagur með nýjum fyrirheitum og ég hlakka til hans. Þangað til næst vinir mínir......

1 ummæli:

Eygló sagði...

Æðislegt að þið áttuð góðan dag sæta mamma mín :)
Veðrið alveg búið að leika við okkur undanfarna daga og vonandi verður það svona gott áfram! Allavega um helgina :)
Þín uppáhalds Eygló + bumbugullið