miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur

Get ekki annað en tekið undir með fyrirliða handboltalandsliðsins sem sagði þessi orð í ræðu sem hann hélt áðan við móttökuathöfn fyrir Strákana okkar. Ég held að við gerum okkur ekki nægilega mikla grein fyrir þeim forréttindum að fá að fæðast á landi eins og Íslandi sem flýtur í mjólk og hunangi. Margir tala um kreppu en það er engin raunveruleg kreppa hér á landi. Við höfum öll gott af því að þurfa að hugsa aðeins um í hvað við látum peningana okkar en það geta kannski ekki gert allt sem við viljum akkúrat þegar við viljum, það er ekki kreppa.
Það að þurfa að losa sig við dýra bíla, fara í færri utanlandsferðir og hugsa hvort okkur raunverulega vanti það sem við erum að spá í að kaupa, er ekki kreppuástand. Hins vegar ef við ættum ekki mat eða fatnað handa okkur og börnunum okkar og enga vinnu að hafa þá gætum við farið að tala um kreppu.

Ég er stolt af að vera Íslendingur og er þakklát fyrir að vera ein af þessum aðeins rúmlega þrjúhundruð þúsund sem hafa fengið þessa gjöf. Ísland er jú ekki lítið land, Ísland er STÓRASTA land í heimi.

Og talandi um það, ég sá mann í gær í stuttermabol með þessari áletrun sem mér finnst alger snilld, veit einhver hvar hægt er að nálgast svona boli, mig langar nefnilega í einn.

Höldum svo áfram að vera glöð og best, svo ég ljúki nú þessum pistli á sama hátt og ég byrjaði hann, með tilvitnun í fyrirliðann. Enda er ég fræg, ekki gleyma því, ég vinn með henni Sirrý sem er mamma hans Didda, varnarjaxlsins sterka sem var rétt í þessu að taka við orðunni hjá honum Hr. Ólafi. Við sem vinnum með Sirrý erum búnar að segja henni að við eigum hann með henni. Þangað til næst vinir mínir.....

Engin ummæli: