fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Kóngsins Köben

Fljótlega eftir að við hættum við að fara í sumarfrí til Rhodos ákváðum við Hrund að skella okkur saman í mæðgnaferð til Kaupmannahafnar. Í byrjun júlí var svo ferðin pöntuð og 15. ágúst var tilvalinn ferðadagur. Auðvitað gátum við ekki vitað þá að elskuleg tengdamamma mín og amma Hrundar myndi kveðja okkur þann sama dag.

Á fimmtudeginum á undan þegar ljóst var að hverju stefndi spurði ég Erling hvað hann vildi að við gerðum og við vorum alveg tilbúnar að hætta við ef hann óskaði þess. „Hún mamma myndi ekki vilja að þið hættuð við og hvort þið farið eða ekki breytir engu héðan af varðandi mömmu svo ég vil bara að þið drífið ykkur og njótið samverunnar við hvor aðra“. Undir þetta tóku systkini hans og ég var þeim þakklát fyrir skilninginn.


Mæðgurnar í Leifsstöð


Það var auðvitað skrýtið að fara af stað í ferðalag sama dag og hún kvaddi en eftir að hafa komið við og fengið að sjá hana þar sem hún var í hvílubeði sínu, tígurleg sem drotting, þá leið okkur betur og við héldum af stað. Við áttum góðan og skemmtilegan tíma saman enda er Hrund mjög skemmtilegur ferðafélagi. Við gerðum bara það sem okkur langaði til þegar okkur langaði til þess. Við fórum m.a. í strætó út á Amager að kaupa barnavagn fyrir Eygló og Bjössa og það var bara gaman og smá ævintýri. Íris var búin að segja okkur frá pínu lítinni búð þar og þetta var svona eins og að koma í búð hjá Kaupmanninum á Horninu hérna í „gamla daga“.


Fyrir utan barnavagnabúðina á Amagerbrogade 2


Á strætóstoppistöðinni með vagninn



Við Hrund á Ráðhústorginu, það var slysavarnasýning þar






Fórum á Peder Öxe, Hrund skvísa og mamman hennar



Við versluðum aðeins, fórum út á borða á kvöldin, fórum í siglingu og stundum settumst við bara niður og fylgdumst með mannlífinu sem er mjög fjölbreytt þarna í kóngsins Köben. Erling var búinn að biðja okkur um að vera ekki seint úti á kvöldin og við ákváðum að vera alltaf komnar upp á hótel ekki seinna en 11 á kvöldin og vorum síðan alltaf komnar inn vel fyrir þann tíma. Þar sem myndir segja meira en mörg orð þá læt ég nokkrar fylgja með og leyfa ykkur að sjá hvað við nutum lífsins.



Í siglingunni, Hrund tók myndina svo við ættum nú einhverja af okkur saman:o)



Á ekki alltaf að deila? Líka heyrnartólum? Natalie Cole á ipodinum:o)



Skvísan á brautarstöðinni, Hovedbanegarden

Ég er í fríi fram á mánudag og ætla bara að slappa af og njóta þess að vera til. Dagarnir hafa verið skrýtnir, því þótt Hrefna hafi verið búin að vera lasin og orðin 87 ára þá er missirinn stór og söknuðurinn til staðar. Njótið lífsins lesendur mínir, þangað til næst.......

1 ummæli:

Eygló sagði...

Frábært hvað það var gaman hjá ykkur, enda varla annað hægt, báðar svona skemmtilegar og æðislegar! Takk enn og aftur alveg milljón fyrir að nenna að strætóast og fara og kaupa barnavagninn fyrir okkur og fara með hann tilbaka og í flugið og allt það! Þið eruð algjörar perlur!
Endalaust TAKK :)
Þín uppáhalds Eygló sem á flottasta barnavagn á Íslandi :)