laugardagur, ágúst 30, 2008

Í minningu tengdamóður minnar

Þegar ég gekk inn á Vífilstaði þennan miðvikudag, í stofuna hennar Hrefnu tengdamóður minnar til 32ja ára, vissi ég að hennar lífsganga var senn á enda.

Þar sem ég sat við rúmið og hélt í hendina hennar leitaði hugur minn aftur í tímann og minningarnar streymdu fram. „Komdu inn með mér og hittu foreldra mína“, sagði Erling við mig. Ég var bara 16 ára og ekki of kjörkuð en lét þó tilleiðast. Ég hefði ekki þurft að vera svona kjarklaus, Hrefna og Maggi tóku mér vel þótt eflaust hafi þeim fundist við of ung til að vera orðin kærustupar. Hrefna var mikill mannþekkjari og það var mér mikill heiður að vera strax meðtekin eins og ein af krökkunum þeirra og hjá þeim átti ég sama skjól og hjá mínum eigin foreldrum. Hrefna átti sterka trú, bað fyrir okkur öllum, predikaði ekki í orðum en verkin hennar töluðu hátt og snjallt góðan boðskap.
Fyrstu jólin mín að heiman hélt ég á heimili hennar og hún skildi þessa unglingsstelpu sem saknaði foreldra og systkina og vildi allt fyrir mig gera. Einhvern veginn var allt svo lítið mál hjá henni. Mér fannst t.d. gæs vond en hún vissi að Erling elskaði að fá gæs og til að gleðja hann og dekra mig þá var ekker tiltökumál að hafa bara eitthvað annað líka. Hins vegar átti hún eftir að kenna mér síðar að meta gæsina.
Þegar ég var 21 árs eignuðust við Erling tvíburadætur og áttum eina eldri dóttur fyrir, þá kom hún og var hjá okkur fyrstu vikurnar enda tíðkaðist ekki þá að feður fengju feðraorlof. Þvílíkur munur að hafa þennan dugnaðarfork hjá sér og þegar ég var að segja að mér finndist ómögulegt að hún væri að standa í þessum þvotti þá fannst henni það nú ekki mikið mál, þú átt nú þvottavél , sagði hún bara. Hennar kynslóð þekkti ekki þennan munað sem þvottavélar eru og var þvotturinn bara þveginn úti í læk. Elsti sonur hennar er fæddur í október og var Hrefna úti í læk að þvo þegar hún tók léttasóttina með hann.
Hrefna var mikil hannyrðakona og kunnu stelpurnar mínar vel að meta ullarsokkana og vettlingana sem hún gaf þeim og verkin hennar prýða heimili barnanna hennar og þeir eru ófáir útlendingarnir sem eiga lopapeysu eftir hana. Hún hafði ekki góða sjón og ég held að henni hafi þótt það einna verst þegar hún varð blind að geta ekki sinnt handavinnunni eins og áður. Hún kvartaði þó aldrei og var alltaf glöð og ánægð með sitt.

Mér auðnaðist ekki að vera viðstödd þegar hún kvaddi en hafði átt stund með henni nóttina áður. Tveimur tímum eftir andlát hennar kom ég inn til hennar og það var tígurleg ró yfir hvílubeðinu. Hún var svo friðsæl og falleg. Ekki var til hrukka á andliti hennar og hárið rétt aðeins farið að grána í rótina en dökka litnum í hárinu hafði hún haldið betur en við hinar sem yngri erum. Hrefna hafði fullnað skeiðið, varðveitt trúna og hefur nú hitt tengdapabba aftur.
Guð gefi okkur öllum styrk til að takast á við söknuðinn og djörfung til að bera áfram kyndilinn sem hún lætur okkur eftir.
Ég drúpi höfði í virðingu og miklu þakklæti og blessa minningu tengdamömmu minnar.

Minningargrein birt í Mbl 29. ágúst

Engin ummæli: