Erling er í mörg ár búinn að dreyma um að þeysa um landið á mótorfák og því var ég mjög glöð þegar hann dreif sig í prófið fyrir nokkru síðan með Badda vini sínum. Þeir eru báðir búnir að kaupa sér hjól og í gær þegar við vorum á leiðinni heim af Fitinni þá hringdu þeir sig saman félagarnir og ákváðu að fara í hjólatúr í þessu líka frábæra veðri sem var í gær. Jakob, vinur Badda, slóst í för með þeim og það voru flottir félagar sem þeystu úr hlaði hér við Húsið við ána og vélfákarnir voru sko ekki af verri endanum. Þeir eru í “öldungadeildinni” og gæta sín vel að aka ekki yfir hámarkshraða enda skynsamir menn á ferð sem gera sér fulla grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem mótorhjólaakstur er.
Það er hverjum manni nauðsynlegt að stefna að því að láta drauma sína rætast. Lífið er svo stutt og við vitum ekki hversu langan þráð við höfum til ráðstöfunar. Við Erling vorum rækilega minnt á það sl laugardagskvöld þegar við vorum að njóta þess að vera til í fjallakofanum okkar á Föðurlandi og síminn hringdi rétt fyrir miðnætti. Jói, mágur Erlings og svili minn, hafði fyrr um kvöldið fengið hjartaáfall og það var hárréttum viðbrögðum Hildar mágkonu minnar að þakka að hann lifði af. Jói hefur ekki kennt sér neins meins varðandi hjartað og því kom þetta sem þruma úr heiðskíru lofti. Hann er nú á sjúkrahúsi en er á batavegi og við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr.
Helgin var frábær að venju, alltaf gott að skreppa austur á Föðurlandið í sveitakyrrðina þótt hún sé reyndar líka til staðar hér á Selfossi. Við skruppum svo í afmæli til Bjössa seinni partinn í gær, ég fór á bílnum og Erling kom svo á hjólinu þegar þeir voru búnir með hjólatúrinn félagarnir. Eftir afmælið skruppum við svo aðeins og kíktum á vini okkar í Grafarvoginum, Sigrúnu og Heiðar og þar voru fyrir aðrir vinir okkar, Júlíana og Rúnar. Góðir vinir er dýrmætir og því um að gera að rækta slíkt samfélag.
Framundan er fyrri hluti sumarfrísins og við ætlum að eyða þeim hluta heima við og á Föðurlandi svona eftir því sem okkur langar til. Ég hlakka mikið til, það er notalegt á báðum stöðum. Við ætlum einnig að skreppa á fjöll og reyndar bara gera það sem okkur langar til að gera í það og það skiptið.
Njótið lífsins vinir mínir, það geri ég svo sannarlega og þakka fyrir hvern þann dag sem ég fæ að vakna heilbrigð og frísk, það er ekki sjálfgefið........Þangað til næst
1 ummæli:
Gaman að þessu með mótorhjólin ;)
Vona að þið njótið frísins í botn!!
Sjáumst amk annað kvöld eða laugardag!
kv. Íris
Skrifa ummæli