miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Frumburðurinn á afmæli í dag, 27 ára......

Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati þá örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?
Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið. Við fórum áðan og kíktum á hana og Karlott á fallega heimilinu þeirra, Petra Rut og Katrín Tara sváfu vært og við áttum saman notalega kvöldstund. Afmælisbarnið er reyndar eitthvað lasin, er með einhverja undarlega verki í herðablöðum og við lærleggskúlurnar (vona að þið skiljið mig) og þetta leiðir niður í fætur og veldur henni andvökunóttum en hún á að hitta lækni á morgun svo vonandi finnst hvað er að hrjá hana.
Íris mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, ég bið Guð að blessa þig ríkulega, lækna þig af þessu sem er að hrjá þig og gefa þér alla þá visku sem þú þarft á að halda í lögfræðináminu.
Ég elska þig og er mjög stolt af þér

3 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir þetta mamma. Það var mjög gaman að þið kíktuð í heimsókn í gærkvöldi, þótti vænt um það. Sjáumst bara endilega aftur sem fyrst. Hafðu það gott í dag ;)
Þinn frumburður
Íris E

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með frumburðinn. Ég man þennan dag líka! k.kv. Teddi.

Nafnlaus sagði...

Nú erum við að tala saman ;-))