sunnudagur, ágúst 28, 2005

Góð helgi að baki...

Eg vaknaði fyrst kl hálfníu en á laugardagsmorgni, í mínum huga, jafngildir það því að vakna um miðja nótt svo ég sneri mér á hina hliðina og augnabliki seinna var ég svifin inn í draumaveröldina á ný. Þegar ég opnaði augun næst var kominn kristilegur fótaferðatími (samkv. minni skilgreiningu) enda klukkan að verða hálftólf. Þar sem ég vissi að Erling biði frammi með nýlagað kaffi og rjúkandi heitt brauð, dreif ég mig fram, undir sturtuna og var komin fram í eldhús hálftíma seinna. Já, laugardagar eru bestu dagar vikunnar. Við tók lestur dagblaðanna og mig langar að vekja athygli ykkar á viðtali í Fréttablaðinu við hana Jónu Hrönn miðborgarprest. Hún er þar að tala um ástandið í miðborginni á menningarnótt og ég bað hana Hrund dóttur mína að lesa það svo hún skildi betur hvað ég átti við þegar ég neitaði henni um að fara í bæinn eftir vinnu þessa “menningarnótt.” Þið sem eigið unglinga, hvetjið þau til að lesa um það frá henni hvernig ástandið er þarna. En aftur að laugardeginum mínum. Við Erling vorum búin að ákveða að fara austur á landið okkar í Fljótshlíðinni og pakka tjaldvagninum sem var búinn að standa þar til þerris síðan við vorum á töðugjöldum fyrir hálfum mánuði.
Samkvæmt gamalli hefð var stoppað á Selfossi og keyptur ís og fyrst það var nú einu sinni nammidagur þá fékk Erling sér shake og ég fékk bragðaref ummmmmm......
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta þegar við komum þangað og vagninn var skrjáfaþurr og fínn og við pökkuðum honum og gengum vel frá þar sem hann verður ekki notaður meira þetta árið.
Á leiðinni austur hringdi Hlynur til að segja Erling hvað það væri rosalega gott veður í sveitinni og þegar hann vissi að við værum á leiðinni þá var okkur boðið að koma í kaffi í bústaðinn þeirra. Við gerðum það síðan og hittum þar fyrir Hansa og Auju og við áttum notalegt samfélag þennan fallega eftirmiðdag. Þegar degi tók að halla og kvöldmatartími var skollinn á vildi ég nú hætta að tefja húsráðendur og fór að líta til Erlings með svip sem hann veit að þýðir að við ættum að fara að fara. Hlynur og Gerður komu þá með þá uppástungu að við grilluðum öll saman (við fjögur þar sem Hansi og Auja voru farin heim) og það varð úr að þeir bræður fóru til byggða að draga björg í bú enda sannir hellisbúar. Það var orðið vel rökkvað í bústaðnum þegar ég stóð og var að búa til sósu á gashellunni. Um mig fór einhver undarleg sælukennd, þetta var eitthvað svo friðsælt og notalegt og ég fann til verulegrar tilhlökkunar til þess að byrja á kofanum okkar Erlings. Ég labbaði út á pallinn til bræðranna samrýmdu og spurði hvort þeir gætu ekki bara hjálpast að við að koma upp kofa fyrir okkur fyrir haustið og þar sem Hlynur er hjálpsemin uppmáluð þá var það ekki mikið mál að hjálpa til. Eini vandinn er sá að Erling hefur alls engan tíma vegna skólans til að gera þetta núna þannig að það bíður vorsins en þá ætlum við að hefjast handa við bygginguna. Hún verður ekki stór en hún verður notaleg með arni og hreindýraskinni á gólfi, gamalli klukku á veggnum og Erling dreymir um gamlan ruggustól á pallinn. Í vetur ætla ég að innrétta kofann svona í huganum og mikið hlakka ég til að eiga þar rómantískar stundir þar sem við hjónin verðum bara tvö og svo líka þær fjörmiklu stundir þegar stórfjölskyldan safnast þar saman, stelpurnar, tengdasynirnir og litlu ömmugullin.
Nú er sunnudagskvöld, klukkan að verða tíu og þessi helgi hefur liðið alveg jafnhratt og allar hinar. Ég sit ein frammi í stofu, Hrund er að vinna og Erling er inni á skrifstofu að læra, lokaspretturinn er framundan, næsta vor útskrifast hann sem lögfræðingur og mikið hlakka ég til. Annars erum við með margt á prjónunum framundan sem ég deili með ykkur lesendur mínir á næstu vikum. Lífið er nefnilega svo skemmtilegt en um leið breytingum háð og því er um að gera að prófa að gera það sem mann langar til, allavega langar mig ekki að líta um öxl á efri árum og segja; ég vildi að ég.............

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jii hvað ég er heppin að það skuli vera "skjalfest" á internetinu að þú álítir mig bæði systur og dóttur - því þá get ég komið með litlu gullin mín í fjölskyldupartý í nýja flotta sumarhúsinu ykkar... tíhí.

Nafnlaus sagði...

Þið eruð sko alveg til fyrirmyndar mamma og pabbi að láta drauma ykkar rætast. Hlakka alveg svakalega til að koma í heimsókn í bústaðinn ykkar og líka til að tjalda á lóðinni. Vá um mig fer útilegufiðringur. Hafðu það gott mamma, þú ert æði::)) Þín Arna

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Erla sagði...

Tíl útskýringar á öllum þessum athugasemdum sem ég hef eytt þá voru þetta einhver "spam" komment á ensku og ég vil ekki hafa það á síðunni minni. Eigið góðan dag og endilega komið með álit ykkar á skrifum mínum, þeim verður ekki eytt :o)
Mbk Erla

Íris sagði...

Fyndið að þú skulir sofa út til hálf tólf! Hjá mér er bara liggur við að koma kvöld þá ;) Búin að vaka í marga klst í hádeginu :D
Annars er mjög gaman að lesa hvað þú hefur að segja og skemmtilegt að sjá að þú ert að breyta til með útlitið!!

Nafnlaus sagði...

Mikið samgleðst ég ykkur varðandi byggingarframkvæmdir á "Föðurlandinu". Hlakka til að kíkja á ykkur í sælureitinn. Svo finnst mér þetta flott útlit hjá þér á síðunni þinni.
k.kv. Teddi.

Nafnlaus sagði...

Hæ, bara að segja að mér finnst þetta fínt útlit en samt svolítið tómlegt - vantar alla linka og svoleiðis...

Heidar sagði...

Saknaði þess að sjá ekki athugasemdir um að vinir yrðu velkomnir í kofann. :-(

Erla sagði...

Heiðar minn, sumt er svo sjálfsagt að það þarf ekki að taka það fram. Ég tala nú ekki um vini sem eru líka í nánustu fjölskyldu :o)
Efast ekki um að við fjögur eigum eftir að eiga góðar og skemmtilegar stundir í kofanum :o)