föstudagur, desember 30, 2011

Orð eru álög...

...er nafn á bók sem ég fékk í jólagjöf og við Erling höfum verið að velta þessum orðum fyrir okkur. Einhvers staðar segir einnig að orð séu til alls fyrst og í helgri bók segir að dauði og líf sé á tungunnar valdi.
Við og krakkarnir höfum núna í nokkur ár sest niður á nýársdag og velt fyrir okkur markmiðum fyrir árið sem er að byrja, við skrifum þau niður og skoðum svo að ári, hvað hefur ræst og hvað ekki. Þetta eru ekki áramótaheit heldur markmið sem við gjarnan viljum sjá rætast hjá okkur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað ég ætla að setja á blaðið mitt eftir tvo daga og hugsa meira og meira um þetta að...orð eru álög..... það skiptir svo miklu máli hvað við segjum því það sem við tölum út er eitthvað sem undirmeðvitundin fer að vinna að. Ef það er eitthvað sem við virkilega viljum gera þá er árangursríkara að segja "ég ætla" heldur en "ég vona" Ég hef ákveðna hugmynd um hvernig og í hvaða kringumstæðum ég vil sjá mig á nýju ári og ætla að prófa þetta á sjálfri mér, vera ákveðnari í markmiðasetningu og framfylgja því af fremsta megni, því ég get það sem ég vil. Ég er viss um að um næstu áramót hafa markmið næsta árs ræst.... ég ætla einnig að gæta orða minna í daglegu tali því þau hafa vægi og verða aldrei tekin tilbaka....

Engin ummæli: