fimmtudagur, desember 22, 2011

....þau eru alveg að koma.....

Jólalögin óma á efri hæðinni, youngsterinn kominn heim í jólafrí og nú skal herbergið tekið í gegn mömmslunni til mikillar gleði :) Það er notalegt að heyra í henni og hún á það til að söngla með enda er söngur hennar líf og yndi. Jólahátíðin nálgast okkur hér í Húsinu við ána þrátt fyrir annríki undanfarinna daga. Aðventan hjá okkur hefur verið með öðru sniði en áður enda höfum við ekki áður verið með verslanir sem þarf að hugsa um að séu með nóg af vöruúrvali fyrir viðskiptavininn. Ég ætla svo sjálf að vera við afgreiðslu á aðfangadag og það er líka nýbreytni, ég man ekki eftir að hafa áður unnið á aðfangadag en er viss um að það er bara gaman. Hrund verður með mér í hinni búðinni og svo veit ég að það bíður okkar dekur þegar við komum heim. Í gær tókum við á móti fyrstu sendingunni frá Ameríku fyrir Home design og það var pínu undarleg tilfinning að hafa tollapappíra í höndum og vera sjálf "innflytjandi". Það kom mér líka á óvart hvað þetta var allt einfalt í sniðum og tók stuttan tíma frá pöntun þar til það beið tollafgreitt í vöruskemmu í Hafnarfirði. Ég las áðan viðtal við "fræga" konu og sú var auðvitað spurð hvernig hún færi að því að fitna ekki um jólin. Ég var ánægð með svarið því hún sagðist fitna um jólin og ef hún gerði það ekki þá væri bara eitthvað að. Hins vegar er ljóst af útliti hennar að það er kannski ekki mikið og fer fljótt af en viðhorfið var gott. Leyfum okkur að njóta alls þess góða sem í veg okkar er lagt en munum samt að allt er gott í hófi og ef við erum aflögufær þá eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar þessi jól og ýmis samtök sem geta verið milliliðir til þeirra.

Engin ummæli: