þriðjudagur, desember 27, 2011

og svo komu jólin.....

Það var svolítið skrýtið á aðfangadagsmorgunn að hafa sig til og fara í vinnu en það hef ég aldrei gert áður. Það var heilmikil umferð þegar ég keyrði út í búð, fólk að flýta sér því jólin voru jú alveg að koma. Ég var varla búin að kveikja á kertunum í búðunum þegar fyrsti viðskiptavinurinn kom, fólk var kátt og spjallaði þótt það þekkti mig ekkert. Þegar ég keyrði svo heim þá var strax komin meiri ró yfir bæinn minn, fólk flest komið heim til sín að undirbúa hátíðina sem yrði hringd inn kl sex. Erling og Hrund voru tilbúin með okkar hefðbundna hádegismat á aðfangadag og það gerði ekkert til þótt það væri ekki á "réttum" tíma. Hrund hafði á orði að það væri svo skrýtið hvernig tilfinning aðfangadags hefði breyst og við foreldrarnir litum á hvort annað og sögðum svo næstum í kór að þetta væri vegna þess að hún væri ekki lengur barn og þá upplifir maður hlutina öðru vísi. Jóladagarnir hafa verið góðir, við hér erum mjög fastheldin á hefðir og breytum engu varðandi þessa 3 daga nema nauðsyn þyki. Á þriðja degi jóla var ákveðið að bjóða letinni í heimsókn og hún var ekki sein á sér að koma inn enda ekki oft sem henni leyfist það og deginum varið í lestur, mandarínuát og sjónvarpsgláp í góðum félagsskap flotta míns og youngstersins míns. Allar þrjár myndir Lord of the rings, lengri útgáfan, voru teknar á tveimur kvöldum, spáið í því.
Lífið mitt hér í Húsinu við ána er afar ljúft, oft annasamt en næstum alltaf skemmtilegt líka. Það er gott að hafa vinnu, eiga fjölskyldu sem er svo auðvelt að elska og sem elskar mann og gefur lífinu gildi. Held það sé fátt betra en finna litla ömmubarnahandleggi umvefja mann og heyra hvíslað í eyrað að þau elski mann eða þegar Erling grípur mig í fangið og segir mér hvað hann sé ánægður með mig. Þá læðist inn í hugann að einhverju hefur verið áorkað.
Framundan eru áramót einu sinni enn og nýtt ár bíður handan hornsins og það er spennandi að sjá hvað verður skrifað á þá blaðsíðu kaflans.

2 ummæli:

Maria H. Ringdal sagði...

Notalegt ad lesa tad sem tu skrifar :)

Eygló sagði...

Æðislegir pistlarnir þínir! :O) LOV U fallega mamma mín :O)