fimmtudagur, desember 15, 2011

Fimmtudagur verður að laugardegi

Það er enginn sem segir að það þurfti endilega alltaf að hafa laugardaga bara á laugardögum og því ákváðum við Erling fyrir tveimur dögum að hafa laugardag í dag þótt það sé auðvitað fimmtudagur. Það var því engin ástæða til að drífa sig á fætur eldsnemma en mikið var nú notalegt að koma niður á náttfötunum og fá sér morgunmat og kaffi með þessum flotta manni sem ég á. Það er jólalegt að líta út um gluggana og sjá jólaljósin í húsunum í kring glampa svona fallega í snjónum og áin okkar rennur sína leið framhjá, ísköld og tignarleg. Stóra baðið eins og barnabörnin kalla hana, vitandi að það má ekki fara þangað.
Við ætlum að hafa þennan frídag okkar reglulega skemmtilegan, kíkja í höfuðborgina, gera smá jólainnkaup, hitta mann og annan og kíkja á kaffihúsið til hennar Erlu vinkonu minnar og reyna að hitta á barnabörnin og foreldra þeirra. Aðventan er skemmtilegur tími og ég er svo þakklát fyrir það að það er ekki undir mínum þrifnaðardugnaði eða baksturshæfileikum komið að jólin komi. Ef svo væri þá kæmu nefnilega engin jól á okkar bæ. Kósíheit og kertaljós er málið hér í Húsinu við ána og um að gera að láta ekkert jólastress ná tökum á okkur, jólin snúast um allt aðra hluti. Njótum þess að vera til vinir...

1 ummæli:

Eygló sagði...

Yndisleg lesning :) njótið dagsins og það væri gaman að sjá ykkur aðeins :) Þín Eygló