föstudagur, janúar 20, 2006

Ísland fagra Ísland

Það heilsaði kuldalega landið okkar fagra þegar við snerum tilbaka úr sólinni sl miðvikudagskvöld. Margir Frónverjar klöppuðu ákaft í vélinni þegar hjól hennar snertu íslenska grund. Ég hef reyndar aldrei skilið afhverju þetta er svona oft gert og hljóðlega þakkaði ég Guði fyrir að hafa komist heim heilu á höldnu. Flugið heim var vont, ókyrrð í lofti og vélin alltaf að hækka sig meira og meira og mér fannst ég finna fyrir súrefnisskorti og leið ekki vel. Erling sagði að ókyrrðin hafi ekki verið neitt rosalega mikil en mér var allavega nóg um.

Við vorum nú ekki heppin með staðsetningu á gististað þótt þeir hjá Úrval Útsýn hafi mælt með þessum stað og þetta átti að vera 4ra stjörnu hótel en reyndist svo bara þokkalegt 3ja stjörnu hótel, Club Bahia Meloneras, mæli ekki með því. Við lærðum það þó af þessari ferð að það er bæði ódýrara og öruggara með gististað að bóka sig sjálfur á netinu og sleppa þeim millilið sem ferðaskrifstofur eru.

Við hittum konu sem við þekkjum þarna úti og hún og maðurinn hennnar hafa farið víða, þau bóka sig sjálf í flug og mæta á staðinn, skanna hótelin og panta á staðnum. Aðspurð um hvort það væri ekki hætta á að fá ekki hótel sagði hún það ekki vera því það væri svo mikið af hótelum alls staðar. Svo er reyndar líka hægt að bóka hótel sjálfur á netinu.

Engu að síður áttum við frábæra daga í sólinni á Kanaríeyjum sem einnig ber nafnið Eyja stóru hundanna. Ekki sáum við nú marga hunda en kisur voru þarna í massavís. Veðrið var frábært, sól og 24 til 28 stiga hiti fyrir utan einn dag sem var frekar þungbúinn.

Ég fyllti enn eitt árið í ferðinni og Erling lagði sig allan fram um að gera þann dag ánægjulegan fyrir mig og honum tókst það eins og honum einum er lagið. Hann gaf mér evrur í afmælisgjöf (var búinn að gefa mér leðurstígvél hér heima áður en við fórum) og það sama gerðu foreldrar mínir og við byrjuðum daginn á að fara á markað og svo í verslunarmiðstöð þar sem er fatabúð sem fellur vel að mínum smekk. Þarna eyddi ég evrunum mínum og fékk mikið fyrir þær.

Þá var komið rétt framyfir hádegi og við tókum stefnum til Puerto Rico þar sem við fengum okkur léttan hádegismat á strandbar og síðan héldum við upp í fjöllin í fjallaferð.

Við skiluðum okkur tilbaka rúmlega fimm og hittum þá Hlyn og Gerði, ferðafélaga okkar, en þau höfðu eytt deginum á ströndinni og reyndar farið aðeins í búð og keypt handa mér mjög fallega skjaldböku sem er handskorin út í náttúrustein.

Við fjögur áttum pantað borð á uppáhaldsveitingastaðnum mínum á Kanarí, Las Brasas.
Þar fengum við okkur nauta T-bone og nautalund með bestu bernaissósu sem ég hef smakkað og svo bananasplitt í eftirrétt. Dagurinn var sem sagt fullkominn og það var þreytt en ánægt afmælisbarn sem fór heim á hótel.

Í stuttu máli, þá heppnaðist þetta allt mjög vel. Þegar nálgaðist brottför þá var veðurspáin jafn góð þarna úti og hún var leiðinleg hér heima og Hlynur og Gerður ákváðu að vera lengur og framlengdu um eina viku, frábært hjá þeim. Við áttum ekki möguleika á því vegna þess að skólinn kallaði stíft á Erling.

Það var gott að koma heim þrátt fyrir kuldann, ekkert rúm er jafn gott og manns eigið og stelpurnar okkar fögnuðu okkur vel og gott að finna sig svona velkominn tilbaka.
Njótið lífsins vinir, það ætla ég að gera áfram..............Þangað til næst.......

2 ummæli:

Íris sagði...

Frábært að það var svona gaman hjá ykkur en það var líka rosalega gaman að fá ykkur aftur heim ;)

Nafnlaus sagði...

Halló Erla
Gott að ykkur leið vel á Kanó og fengið sæmilegt veður. Vera með hótelið. Til hamingju með afmælið þitt, varstu ekki 36+ þarna úti? Alltaf gott að eiða peningum þegar maður á þá?
Kveðja
Nanna Þ.