þriðjudagur, janúar 03, 2006

Nýtt ár.....

Á sjónvarpsskjánum birtist ártalið 2005 og smá saman rann það saman við ártalið 2006. Já, árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka en framundan er nýtt ár með nýjum tækifærum.

Um þessi tímamót er algengt að fólk staldri aðeins við, hugsi tilbaka og síðan fram á veginn. Hvað skyldi nýja árið færa okkur, höfum við eitthvað með það að gera sjálf eða er þetta allt háð duttlungum örlaganna? Hvað með hamingjuna, skyldi það vera rétt að hún fáist ekki keypt fyrir öll heimsins auðævi heldur sé hún heimagerð? Eða máltækið sem segir að hamingjan sé ekki að fá það sem maður vill heldur að vilja það sem maður hefur.

Árið 2005 var mér ljúft og gott að langflestu leyti og ég er Guði þakklát fyrir allt það góða sem hann hefur lagt í veg minn. Enn ein stúlkan bættist í hópinn okkar Erlings og nú eru þær orðnar níu alls, fjórar dætur og fimm dótturdætur. Stóru stelpurnar, dætur mínar, eru stolt mitt og gleði, þær eru mér til mikils sóma hvar sem þær eru. Litlu ömmustelpurnar mínar eiga hjarta mitt algerlega og bræða mig alveg, t.d. að sækja Petru Rut og Daníu Rut á leikskólann, sjá þegar þær sjá mig og sleppa því sem þær eru að gera og hlaupa í fangið á mér….Petra Rut segir öllum að ég sé amma hennar og Danía Rut kallar; ég á, ég á, meðan hún er á leiðinni til mín. Er hægt að biðja um meira?

Við ferðuðumst mikið, fórum í frábæra þriggja vikna ferð til Danmerkur og svo er það land ísanna, okkar undurfagra Ísland. Ég var að hugsa það þegar ég sá í sjónvarpinu á gamlárskvöld, myndband frá Íslandi, hversu mikil forréttindi það eru að fæðast á þessu landi, þessu frábærlega fallega landi. Ég er alveg heilluð af því og minning um ferðalagið um Fljótshlíðarafrétt fyllir núna huga minn en þangað fórum við í dagsferð með Hansa, Auju, Hlyn og Gerði og nokkrum af börnunum okkar. Þetta var mögnuð og skemmtileg ferð, fallegra landslag fyrirfinnst varla á landinu.

Ég horfi með bjartsýni fram á nýja árið og trúi því að það verði okkur gott. Ég veit að við höfum sjálf heilmikið um það að segja hvernig það verður en auðvitað ræður enginn örlögum sínum en við getum ákveðið að vera jákvæð, hætta að nota orð eins og ef… um hluti sem okkur langar og segja frekar þegar…. Það er svo margt sem mig langar að gera á þessu ári, margt sem ég vil gjarnan breyta í fari mínu, margt sem ég hef margoft byrjað á en alltaf gefist of fljótt upp. Las ágæta setningu áðan sem ég ætla að gera að minni; Ef þér mistekst í fyrstu, reyndu þá aftur og aftur og aftur.

Ég hef allavega ákveðið að halda áfram að njóta lífsins, ég er Guðs barn undir náð hans sem er ný á hverjum degi og hún nægir mér. Um leið og ég þakka ykkur lesendur mínir fyrir að hafa áhuga á skrifum mínum þá óska ég ykkur velfarnaðar á nýja árinu og hlakka til áframhaldandi samfylgdar við ykkur hér í bloggheimum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur pistill mamma. Gaman að þessu með Daníu Rut og Petru Rut, þær eru svoddan krúttlur. Eigðu góðan dag. Arnan þín:):)

Nafnlaus sagði...

já Erlan mín ,við erum stórauðugar og njótum náðar Guðs á hverjum degi.Líf mitt er ævintýri ekki síður en þitt og við skulum gleðjast og njóta þess sem Guð er að geyma handa okkur .Pistlarnir þínir eru frábærir og alltaf gaman að fy
mamman þ´nlgjast með þeim á blogginu .
Guð gefi ykkur gott ár og gleðistundir margar.hef alltaf elskað þig og hætti því sko ekki.