sunnudagur, janúar 08, 2006

Hrund er 17 ára í dag

















Hún fæddist einmitt á sunnudegi. Þegar ég vaknaði þann morgunn fyrir 17 árum var ég mjög spennt enda minnug orða læknisins frá því deginum áður. Í dag var komið að því að fjórða barnið okkar Erlings skyldi fæðast. Fæðingin var reyndar ekki áætluð fyrr en 15. janúar en af ýmsum ástæðum var ákveðið að setja fæðingu af stað jafnvel þótt það væri sunnudagur.
Klukkan hálf ellefu stungu þeir nál í handlegginn á mér og einhver vökvi fór að renna um æðar mér og það varð til þess að rétt rúmlega fjögur sama dag buðum við Hrund velkomna í þennan heim. Ég man hvað hjúkrunarfólkið var hissa þegar við nefndum nafnið hennar enda var það ekki algengt þá að börn fengju nafn strax við fæðingu.

Ljósmóðirin, sem var sú sama og tók á móti Írisi tæpum 11 árum fyrr, setti hana á borðið, Hrund opnaði annað augað og kíkti á pabba sinn og líkaði vel það sem hún sá. Hún sá að öllu var óhætt og lagði sig því bara aftur. Við komum svo heim til fjölskyldunnar á 29 ára afmælisdaginn minn.

Þau hafa liðið alveg ótrúlega fljótt þessi 17 ár og mér finnst alveg ótrúlegt að litla barnið mitt skuli vera orðið jafngömul og ég var þegar pabbi hennar dró hring á fingur mér og við opinberuðum trúlofun okkar.

Hún Hrund er foreldrum sínum til mikils sóma. Hún útskrifaðist úr 10. bekk með aðra hæstu einkunn yfir árganginn og fékk verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir hæstu einkunn í dönsku á samræmda prófinu. Sendiráðið veitir þau verðlaun þeim nemenda í hverjum skóla sem fær hæstu einkunn í dönsku. Þegar við komum svo heim úr sumarfríinu okkar sl sumar,. þá var eitt af bréfunum sem beið okkar, boðsbréf frá Reykjavíkurborg þar sem Hrund og fjölskyldu hennar var boðið að vera viðstödd veitingu Nemendaverðlauna Reykjavíkurborgar, í ráðhúsinu þann 17. júní og þiggja síðan veitingar á eftir. Við mættum auðvitað ekki enda upptekin við að halda uppá þjóðhátíðardaginn á danskri grund. Hrund hringdi því í kennarann sinn og spurði hvort hún vissi af hverju okkur hafði verið boðið og þá kom í ljós að hún hafði verið tilnefnd til verðlauna, og unnið þau en þessi verðlaun eru veitt í nokkrum flokkum. Hún mátti koma og sækja verðlaunin sín út í skóla í dag og þá fékk hún afhent bókaverðlaun og skjal og á því stóð:

Nemendaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur skólaárið 2004-2005.
HRUND ERLINGSDÓTTIR, nemandi í Fellaskóla hlýtur viðurkenningu menntaráðs Reykjavíkur fyrir að vera jákvæð fyrirmynd og sýna frumkvæði og leiðtogahæfileika í skapandi starfi.

Hrund hóf nám í Kvennaskólanum sl haust og stendur sig vel þar og svo vinnur hún tvisvar í viku á Hrafnistu við að gefa eldri borgurum okkar matinn sinn. Henni líkar vel þar og svo í jólafríinu þá bætti hún við sig vinnu og vann hjá Hagkaupum eins mikið og hún gat fengið þar.

Nú er bílprófið handan við hornið og ekki langt að bíða þangað til hún fer að þeytast um bæinn því þar sem hún vefur föður sínum um fingur sér þá er næsta víst að hún fær lánaðan bílinn þegar því verður við komið. Eins gott að ég reyni aðeins að ala hana upp :o)

Elsku Hrund mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið Guð að vaka yfir hverju þínu skrefi og blessa framtíð þína á sérstakan hátt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju med dótturina. Hún er alveg frábaer!!! k.kv. Teddi.

Kletturinn sagði...

Innilega til hamingju og takk fyrir okkur. Þetta var fyrirtaks afmælisveisla áðan. Bestu kveðjur Kiddi Klettur

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með yngstu krúttluna þína. Hún er nú alveg meiriháttar. Eins og þú;);) Takk fyrir flotta afmælisveislu í gær, við fórum södd og sæl heim:):) Arnan þín....

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með örverpið þitt Erla mín. Hún Hrund hefur alltf verið til fyrirmyndar og til hamingju með að hún skuli vera sér og ykkur til fyrirmyndar.
Sambandi við dýrin eða húðina af þeim er mamma en að spyrjast fyrir og hefur bara fengið neikvæð svör en ætlar að halda áfram að spurja þar til þið farið út í sólina =0)
Bestu kveðjur
Nanna Þ