fimmtudagur, janúar 26, 2006

Hversdagslíf....

Það er merkilegt hvað það getur verið mikið að gera hjá manni þegar það er einmitt ekkert að gerast. Ég er sem sagt heima þessa dagana og hamast við að gera ekki neitt.

Ég er búin að sækja um nokkrar vinnur en fæ ekki einu sinni svar. Ég hef ekki áður verið atvinnulaus og því er þetta nýtt fyrir mér en svo lengi lærir sem lifir. Draumastarfið mitt væri að vinna með Erling þegar hann er orðinn lögfræðingur með sína eigin stofu. Við erum líka svo mikil flökkudýr að það væri notalegt að geta svo farið saman í frí þegar það hentaði vinnunni og geta með því sameinað vinnu og áhugamál. Það má nú alveg fara nokkrar “vísindaferðir” til útlanda eða er það ekki annars?

Annars er ósköp lítið að frétta af mér og okkur, við erum farin að plana sumarið og hver veit nema við notum ferðavinninginn sem við unnum í desember og skellum okkur í helgarferð til Ítalíu eftir prófin í maí. Allavega væri ég alveg til í það. Kannist þið ekki við það að vera nýlent heima á Fróni og LANGA SVO MIKIÐ að fara strax aftur til útlanda???? Þannig er ég að minnsta kosti. Svo er ég að reyna að plata lögfræðinginn tilvonandi í útskriftarferð í sólina.... vona að mér takist það....

En núna er ég að fara í bíó, við matarborðið áðan sagði Erling alveg uppúr þurru að hann ætlaði að bjóða mér í bíó í kvöld, á King Kong. Ég hlakka til og vona bara að Erling sofni ekki í bíóinu því myndin byrjar ekki fyrr en kl hálf tíu og er í þrjá tíma skilst mér. Og Erling sem er svo kvöldsvæfur ef hann sest niður fyrir framan skjáinnn……

Við sjáum hvað setur, ég get þá allavega sagt honum hvernig allt fer.

Má samt til með að segja ykkur að þegar ég fór í fyrsta sinn í bíó, árið 1976, þá sá ég einmitt King Kong og fór með Erling…….

Engin ummæli: