Ég fann það gegnum svefninn að einhver var að horfa á mig, reyndi eins og ég gat að opna augun en þau voru frekar þung augnlokin að þessu sinni. Það tókst þó að lokum og ég leit í augun á flottasta manni í heimi og sá klukkuna á náttborðinu hans 12:09. Mér hafði þá tekist það sem ég ákvað í gærkvöldi þegar ég lagðist á koddann en þá sagði ég við Erling að ég ætlaði að sofa til hádegis á jóladag. Mikið var þetta notalegt. Ekkert hljóð heyrðist í íbúðinni og það benti til þess að fleira heimilisfólk hafði farið að dæmi mínu.
Ég fór samt fljótlega framúr og á fætur. Gærdagurinn var góður og jóladagurinn lofaði líka góðum hlutum. Það varð þó ljóst í gærmorgun að ekki mundu allar áætlanir ganga upp. Litlu fjölskyldurnar okkar Erlings voru búnar að ráðgera að koma til okkar í heimsókn eftir matinn og pakkaupptöku en klukkan níu á aðfangadagsmorgun hringdi Arna og sagði okkur að Danía Rut væri komin með hlaupabólu og eftir hádegi hringdi Íris til að segja okkur að Katrín Tara væri komin með rúmlega 39 stiga hita og því myndu þau ekki koma um kvöldið. Það var auðvitað mjög leiðinlegt en svona er lífið samt þegar maður á börn, allt getur gerst.
Við Erling ásamt Eygló og Hrund áttum mjög góðan aðfangadag, reyndar var Hrund að vinna frá átta um morguninn til rúmlega hálfþrjú og kom lúin heim enda búin að vinna líka 12 tíma daginn áður. Hún er hörkudugleg og ég er mjög stolt af henni. Allur undirbúningur fyrir jólin hafði gengið vel og því var hægt að taka því bara rólega yfir matarundirbúning og um þrjúleytið, meðan Eygló sótti Hrund, þá settumst við hjónin inn í stofu með kaffi og konfekt og spjölluðum saman, það var notalegt.
Kvöldið var mjög skemmtilegt, fullt af pökkum sem í leyndist margt spennandi og margt sem hafði verið á óskalistum kom upp úr kössum fylltum af gömlum dagblöðum. Við í fjölskyldunni reynum að hafa pakkana frá okkur þannig að það sé engin leið að sjá hvað er í þeim. Það ríkti mikil værð yfir okkur þegar leið að miðnætti, við stelpurnar vorum komnar í náttfötin og kúrðum öll í sófanum með bækur, jólaöl og nammi, alveg eins og vera ber á jólunum. Ég er Guði óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína, ég saknaði reyndar ömmustelpanna minna en við því var ekkert að gera.
Í dag kom svo Arna aðeins í heimsókn með Söru Ísold og Þórey Erlu og við fórum síðan á Vífilstaði að heimsækja Hrefnu mömmu hans Erlings og eftir það var farið á hátíðarsamkomu í Fíladelfíu. Við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í hangikjötsveislu í kvöld en vegna veikinda varð ekkert af því en í staðinn fórum við bara með matinn til Írisar og fjölskyldu og áttum notalegt kvöld með þeim. Petra Rut stóð fyrir skemmtiatriðum, stóð uppá stól og söng mörg lög fyrir okkur og hneigði sig fallega eftir hverju lagi. Hún er svo skemmtileg stelpan.
Á heimleiðinni fórum við í okkar árlega jólaljósarúnt og sáum nokkur mjög fallega skreytt hús með flottum jólaljósum. Áður en við fórum hafði ég stillt vídeóið til að taka upp tónleikana með Garðari Cortes en ég setti inn vitlausan dag þannig að………ég auglýsi hér með eftir því hvort einhver hafi tekið þetta upp og tími að lána mér spóluna, ég var ferlega spæld.
Jæja, kæru lesendur mínir, ég vona að þið njótið þessara jóladaga eins vel og ég geri. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að eiga fjölskyldu og vini og heimili til að koma í. Það er ekki sjálfsagt og markmið mitt er að rækta enn betur þessi bönd sem binda mig við fólkið mitt, hvort sem það er mín stórfjölskylda eða tengdafjölskyldan, systkini Erlings og makar þeirra.
Erling, Hrund og Eygló eru núna frammi í stofu, ég ætla að fara og slást í hópinn með þeim, við ætlum að horfa saman á mynd sem ég fékk í jólagjöf frá Eygló, “Shall we dance”. Skyldu þau vera búin að blanda jólaölið? Best ég gái……..
4 ummæli:
Æðislega skemmtlegur pistill!! Ég verð að segja að mér fannst ekkert smá æðislegt að þið vilduð koma hingað í gærkvöldi! Þótti ekkert smá vænt um það. Og þetta var alveg rosalega skemmtilegt og henni Petru Rut fannst sko ekki leiðinlegt að fá ykkur eins og þið kannski tókuð eftir!!
Við erum einnig búin að njóta jólanna svipað og þú og ég hef bara þessa fyrirmynd frá ykkur pabba, njóta jólanna og ekkert stress, bara hafa það notalegt og kósí!
Þetta er það dýrmætasta í lífinu, að njóta tímans með sínum nánustu og búa til góðar minningar fyrir börnin og mann sjálfan!
Sjáumst aftur sem fyrst!
Gaman að lesa þenna pistil og þetta eru búin að vera virkilega skemmtileg og notaleg + æðisleg jól í faðmi fjölskyldunnar :) Svo notalegt eins og t.d á aðfangadag að fara í náttfötin og lesa bók, og takk fyrir að búa til súkkulaði þó að flestir hafi verið búnir að afþakka nema mér sem finnst það alveg tilheyra að fá súkkulaði á aðfangadagskvöld ;) Tak for det :)Það var líka gaman að horfa á Shall we dance í gær og ég mæli hiklaust með henni :) Hafðu það brjálað gott sæta mín :) Þín dóttir Eygló
Halló jólakona!
Æðislegt að fjölskyldan sé svona náin og heilbrigð. Ég er búin að spyrja mömmu um skinnin og er það í nefnd á kanó. Hvernær farið þið hjónakornin þangað?
Hafðu það sem best um áramótin og megi komandi ár vera þér sem best.
Kvk Nanna
Takk fyrir okkur í gær, þetta var alveg svakalega gaman að vera með ykkur. Njótið svo dagsins í botn og við sjáumst sem fyrst aftur. Allavega þegar Hrund verður 16 ára....Djók, 17 ára!!!!
Skrifa ummæli