
Þeir voru flottir vinirnir sem stöðvuðu vélfáka sína hér fyrir utan “Húsið við ána” sl sunnudag. Þar voru á ferð Kiddi bróðir minn, Kalli frændi minn og svo hann Ámundi vinur þeirra. Bílar sem óku framhjá hægðu mjög á sér eða hreinlega stöðvuðu bíla sína til að sjá þá betur.

Erling hefur lengi langað að fá sér mótorhjól og eftir þessa heimsókn var ekki aftur snúið. Honum versnað mótorhjólaveikin fram eftir degi og um kvöldið var hann orðinn mjög lasinn og hann vildi ekki einu sinni batna. Á mánudagsmorgni hófst svo leitin að bifhjólakennara hér á Selfossi og í stuttu máli sagt þá byrjar hann að læra á hjólið eftir rúmlega viku. Kennarinn er nefnilega erlendis og getur ekki byrjað fyrr.
Ég hlakka til að fara að krúsa með honum um landið, fara í sveitina og jafnvel til höfuðborgarinnar. Ég sé okkur alveg fyrir mér á fallegum sunnudegi, klæða okkur í gallana, setja hjálmana á höfuðin og þeysa af stað. Það verður samt að bera þá virðingu fyrir svona gripum að aka á löglegum hraða og vera ekki með neina stæla og ég veit alveg að Erling gerir það. Annars myndi ég ekki hvetja hann til að gera þetta.
Núna er degi farið að halla hér á herragarðinum. Ég sit ein inni á skrifstofu, Hrund er frammi í eldhúsi að undirbúa sig fyrir fyrsta prófið sem verður á morgun og Erling er enn í höfuðborginni, hann er að vinna fyrir Hildi systur sína og Jóa.
Útum gluggann á skrifstofunni blasir við vinkona mín og nágranni, Ölfusáin, og það er reglulega friðsælt að líta út og fylgjast með henni. Ég sé líka yfir á hólmann, sé álftaparið sem við fylgjumst með en kerla liggur sem fastast á hreiðrinu sínu og karlinn vakir yfir henni eins og sannur herramaður. Þau heita Nína og Geiri og við erum búin að setja byggingakíki útí glugga til að sjá þau betur. Alveg magnað. Þarna er líka gæsaparið Litla Gunna og Litli Jón og við fylgjumst líka með þeim

Fyrir löngu síðan, á erfiðum tíma í lífi mínu gaf Drottinn okkur Erling fyrirheiti, orð sem við myndum eiga eftir að upplifa, og ég sé í dag hvernig það hefur ræst fullkomlega í lífi okkar.
“Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda.
Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.” Ljóðaljóðin 2:11-12
Ég þarf ekki nema líta út um gluggann og sjá allan gróðurinn í kringum mig og á næturnar vakna ég stundum við fuglasönginn sem berst yfir ána úr hólmanum og inn um gluggann okkar. Er hægt að biðja um meira?
Njótið lífsins vinir mínir og verið dugleg að gera allt þetta skemmtilega sem ykkur langar til en finnst þið ekki hafa tíma. Forgangsraðið í rétta röð........Þangað til næst.