laugardagur, nóvember 12, 2005

Birgir Davíð Kornelíusson - Blessuð sé minning hans

Þegar mamma hringdi í mig í vinnuna sl fimmtudag þá heyrði ég strax á henni að hún var ekki að færa mér nein gleðitíðindi. Því miður reyndist það rétt vera því hann Biggi frændi minn var dáinn, hafði dáið þá um morguninn á afmælisdegi móður sinnar, 10. nóvember.

Við vorum systrabörn, hann var 13 árum eldri en ég þannig að hann hefur verið samferða mér í gegnum lífið. Það er nú einhvern veginn þannig að maður er aldrei undirbúinn fyrir svona fréttir og þótt ég hafi vitað um nokkurn tíma að hann var veikur með krabbamein þá datt mér ekki í hug að hann myndi kveðja svona fljótt.

Ég man fyrst eftir honum á jóladag, þegar við vorum börn en það var ein af jólahefðunum að stórfjölskyldan hittist heima hjá Siggu og Kornelíusi, foreldrum Bigga. Hann var unglingur og fannst við örugglega óttaleg smábörn, hoppandi upp og niður flotta stigann í húsinu þeirra.

Löngu seinna þegar ég var að vinna á skrifstofu Hvítasunnukirkjunnar þá hafði ég oft samskipti við hann því hann kom gjarnan við hjá okkur og það var alltaf gaman að hitta hann. Hann var líka fastur punktur í öllum ferðalögum á vegum kirkjunnar og kom á flest mót sem voru haldin og fór þá gjarnan með mömmu minni á milli staða. Við Biggi áttum ferðaáhugann sameiginlegan og það var gaman að hitta hann þegar hann var kominn úr einhverri ferðinni og kom til að segja okkur ferðasöguna.

Hann var glaðlyndur og sjaldan sá ég hann reiðan við nokkurn mann. Hann lét samt alveg vita að því ef honum mislíkaði eitthvað en það var fljótt úr honum. Biggi vann á Múlalundi og ef okkur vantaði eitthvað þaðan á skrifstofuna þá var bara að hringja í hann og innan skamms var hann kominn með það sem vanhagaði um og ef ég sagði við hann að ég hefði getað sótt þetta þá fannst honum það nú óþarfi, hann væri hvort sem er á ferðinni. Stundum kom ég við hjá honum í vinnunni og verð að viðurkenna það að mér fannst gaman að vera frænka hans, hann var vel liðinn og augljóst að starfsfólkinu þótti vænt um hann.

Það er á engan hallað þótt ég segi að bónbetri mann var ekki að finna til að keyra eldri borgarana okkar á samverur fyrir þá sem kirkjan stóð fyrir. Biggi frændi átti marga vini og þeir eru margir sem sakna hans en mestur er þó söknuður foreldra hans sem svo sannarlega voru eins og klettar í hafinu í veikindum hans svo og systkina hans.

Um leið og ég og fjölskylda mín vottum minningu Bigga frænda virðingu okkar sendum við Siggu, Kornelíusi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur og styrki á allan hátt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Erla mín
Ég vil votta þér samúð mína vegna fráfals Bigga. Hann var einstakur maður og alltaf tilbúin að hjálpa á skrifstofinni í Fíló.
Svo að öðru það er verið að koma upp nýju Klukki og klukka ég þig hér méð. Sjá á blogginu mínu spurningarnar.
Kveðja
Nanna Þórisdóttir