laugardagur, janúar 20, 2007

Lífið sjálft

Ég vaknaði við að einhver kom inní herbergið og það skrjáfaði í einhverju sem var lagt á náttborðið mitt. Ég opnaði annað augað og sá Erling fara út aftur og ég stoppaði hann og sagði honum að ég væri vöknuð. Hann kom þá og beygði sig yfir mig, kyssti mig og óskaði mér til hamingju með daginn.

Ég er auðvitað að lýsa því þegar ég vaknaði á afmælisdaginn minn sl sunnudag og það var afmælisgjöfin mín sem skrjáfaði svona í.
Þegar ég kom niður hálftíma seinna þá var hann búinn að leggja á borð nýbakað brauð og alls kyns álegg og kaffi. Ég opnaði pakkann frá honum og það var .....IPOD nano 4gb sem mig var búið að langa svo lengi í. Seinna um daginn komu svo dætur mínar og þeirra fólk ásamt vinum og vandamönnum sem komu til að fagna deginum með mér. Ég hef stundum ætlað að fullorðnast að þessu leyti og hætta að þykja svona gaman að eiga afmæli en ég er hætt við það. Erling sagði líka við mig að ef ég reyndi það þá væri ég bara að leika eitthvað sem ekki væri og maður má alveg halda í þetta barnalega í sér. Ég er bara svona.

Ég mun seint hætta að dásama fallega landið mitt og þegar ég ók til Reykjavíkur í dag, yfir Hellisheiði þá fylltist hugur minn lotningu yfir fegurðinni, allt var svo hvítt og hreint, sólin glampaði á fjöllin og snjórinn glitraði bókstaflega. Ég er oft spurð að því hvernig mér finnist að keyra svona á milli og hvort ég sé ekki þreytt á því. Í sannleika sagt þá finnst mér þetta ekkert tiltökumál, ég er ekki oft ein á ferð og þegar það gerist þá set ég bara skemmtilega tónlist á og læt hugann reika. Það er gott fyrir alla að vera stundum einir og þá fæðast oft ýmsar hugmyndir eða lausnir á vanda sem hefur verið að hrella mann.

Í dag var ég að hugsa um fjölskylduna mína bæði kjarnafjölskylduna mína og stórfjölskylduna. Ég er svo lánsöm að við erum öll náin hvert öðru og við stöndum saman þegar eitthvað blæs á móti. Það er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið heldur er það ávöxtur af uppeldi og þeirri vinnu sem hver og einn leggur í fjölskylduna sína. Það gleður mig meira en orð geta lýst að stelpurnar mínar eru allar bestu vinkonur og svo fæ ég að vera vinkona þeirra líka.

Núna er degi farið að halla, það er komið laugardagskvöld og ég sit uppi í sjónvarpsholinu með tölvuna í fanginu og skrifa þessa færslu. Við vorum að enda við að horfa á fyrsta hlutann í Söngvakeppninni og lagið sem ég kaus komst áfram. Það heitir Húsin hafa augu og hinn stórskemmtilegi söngvari Matthías úr Pöpunum söng það. Þetta var eina skemmtilega lagið í kvöld að mínum smekk.

Erling er farinn niður að grilla kvöldmatinn, við ákváðum í gær að hafa kósíkvöld þar sem við erum bara tvö heima. Þá eldum við eitthvað gott, kveikjum á kertum, leggjum fallega á borð, opnum góða rauðvínsflösku og kvöldið er fullkomið. Kostar ekki mikið en er bara frábærlega skemmtilegt. Jæja nú kallar hann, best að fara til hans, þangað til næst......hafið það frábært

2 ummæli:

Íris sagði...

Skemmtileg lesning!
Gaman að sjá hvað þú nýtur þess að vera til!!
Sjáumst vonandi fljótlega ;)
þín Íris

Eygló sagði...

Sammála Írisi, skemmtileg lesning, þið pabbi eruð bæði oft svo skemmtilega ljóðræn :) Þið allavega lýsið hlutunum svo fallega! Hafðu það gott sæta mamma mín og vonandi sjáumst við nú fljótlega.. Þín uppáhalds Eygló