mánudagur, janúar 08, 2007

Hrund er 18 ára í dag, hún lengi lifi.....


Í dag eru 18 ár síðan yngsta dóttir mín fæddist, opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur. Það er skrýtin tilfinning þegar öll börnin manns eru orðin fullorðin og sjálfráða.
Lögum samkvæmt getur Hrundin mín gert það sem henni sýnist og við foreldrar hennar höfum ekkert með það að segja. Sem betur fer eigum við Erling það gott samband við hana og systur hennar að það er engu að kvíða. Hrund er yndisleg stúlka og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft verið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Hrund er á öðru ári við Kvennaskólann og unir hag sínum afar vel enda segir hún að Kvennó sé langbesti skólinn, á því sé enginn vafi. Ég verð að monta mig aðeins af einu jólakorti sem kom á heimilið og var stílað á hana. “Ég vona að þetta kort hitti þig glaða og fríska í jólaleyfinu. Tilefni kortsins er fyrirmyndar skólasókn þín og reglusemi í samskiptum þínum við skólann á nýliðinni haustönn. Þetta vil ég fyrir skólans hönd þakka og óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla. Við erum sannfærð um að framkoma af þessu tagi er mikilvæg undirstaða velfarnaðar í námi og starfi og horfum björtum augum til samstarfsins á komandi ári.”
Undir þetta skrifar svo skólameistari skólans.
Hrund ákvað í byrjun annar að gera allt sem í hennar valdi stæði til að fá 100% skólamætingu án vottorða og henni tókst það.

Elsku Hrund mín, ég óska þér innilega til hamingju með 18 ára afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa þig í leik og starfi um ókomin ár.

6 ummæli:

Erla sagði...

Innilega til hamingju með hana Hrund okkar! Hún er svo sannarlega allri fjölskyldunni til sóma!
Eigið öll góðan dag í dag!
kv. Íris

Íris sagði...

Þetta var sem sagt ég Íris en ekki þú mamma ;)

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með yngstu prinsessuna.
Bestu kveðjur til ykkar allra
Gerða

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hana Hrund, hún er alveg hreinræktað gull:):) Sjáumst núna;);) Hehehehe, Arnan þín

Íris sagði...

Til hamingju með daginn elsku mamma ;)
Hlökkum til að kíkja í heimsókna á eftir.
Bumbuskvísan þín ;)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið sæta sæta!
37 er bara nokk gott;)
(ég held að það sé e-ð til í þessu með sálnaflakk, það er þannig því að þú (verandi 37 ára) getur munað eftir hlutum sem gerðust fyrir jafnvel rúmum 40 árum.. -skrýtið-!!)
love love
Hrund