sunnudagur, október 30, 2005

Föstudagar eru góðir dagar.....

........þá er helgarfrí framundan og gott að koma heim. Á föstudögum er Erling yfirleitt kominn heim á undan mér og ilmurinn af rjúkandi kaffi kemur á móti mér. Mér finnst það notalegt og það er fátt sem getur orðið til þess að ég drífi mig ekki heim strax klukkan þrjú þegar vinnu lýkur. Þessi helgi sem nú er komin að enda var engin undantekning hvað notalegheit varðar. Veðrið var reyndar frekar napurt þegar ég var á heimleið á föstudaginn en ég var á jeppanum og því óhult fyrir öllu veðri. Ég fór í saumaklúbb um kvöldið, barðist þangað eins og sannri hetju sæmir, á jeppanum og það var bara eins og í Húsasmiðjuauglýsingu, Ekkert mál. Stelpurnar voru hressar og skemmtilegar, mikið spjallað og gætt sér á þessum líka fínu veitingum hjá henni Sigrúnu.

Á laugardagsmorgni rak Erling upp stór augu þegar ég kom fram rétt rúmlega tíu og minnti mig á að það væri ekki komið hádegi, hvað ég væri eiginlega að gera á fótum svona “snemma.” Reyndar var einhver undarlegu tónn í röddinni hans þegar hann sagði “snemma.” Það var reyndar skýring á þessum óvenjulega fótaferðatíma húsmóðurinnar en Barbro vinkona mín var búin að segjast ætla að kíkja í morgunkaffi til mín og Siggi ætlaði að koma með henni. Þau eru mjög góðir vinir okkar og hvað gerir maður ekki fyrir vini sína, ja maður spyr sig. Jú, það var auðvitað ekkert mál að vakna “snemma” svona einu sinni þegar von var á góðum gestum enda stóð það heima að þegar sturtan var búin og ég búin að setja upp andlitið þá birtust þau. Við áttum gott spjall við þau eins og vanalega. Þau eru svo stór partur af lífi okkar enda höfum við Barbro verið vinkonur í 34 ár eða síðan við vorum 11 ára.

Seinni partinn fórum við síðan í afmæli til Guðjóns hennar Sirrýjar systur minnar en hann er nú kominn til okkar á fimmtugsaldurinn og við bjóðum hann velkominn í hópinn. Veislan var mjög fín og þeim til sóma.

Kvöldið áttum við Erling svo tvö saman þar sem dæturnar fóru á eitthvað flakk. Við kveiktum á kertum og reykelsi og eins og vanalega þegar við erum bara tvö þá var mikið talað saman og framtíðarplönin rædd af kostgæfni. Það eru svo spennandi tímar framundan hjá okkur, við erum að leggja línurnar fyrir seinni hálfleik og það er gaman.
Eygló kom síðan heim á undan Hrund og tók þátt í spjallinu með okkur.

Í dag komu svo Íris og Karlott með litlu dömurnar sínar og við borðuðum saman í hádeginu, þær algerlega hafa mann í vasanum þessar litlu hnátur og bræða mann með einu litlu sposku brosi. Ætli það sé eitthvað sem maður myndi ekki gera fyrir þær??

Seinni partinn fórum við síðan í vöfflukaffi til vina okkar í Grafarvogi, Sigrúnar og Heiðars og ræddum framtíðarplön okkar, jólin framundan, sumarfrí og margt fleira.
Góðir vinir eru mikil Guðs gjöf og ég er Honum þakklát fyrir vini mína.

Nú á ég bara eftir að vinna í Verkvangi í einn mánuð og ég er að uupplifa það hvernig Guð opnar fyrir manni dyr þegar aðrar lokast. Ég er þess fullviss um að þó svo ég hafi misst vinnuna vegna aukinnar samkeppni á þeim markaði sem Verkvangur starfar á og varð til þess að fyrirtækið þurfti að minnka við sig og fækka fólki, þá blasir framtíðin við mér og ég mun vinna við það sem mér finnst mjög skemmtilegt. Ég er með ýmislegt á prjónunum, hef verið á spennandi námskeiði sem varðar atvinnulega framtíð mína. Það er gaman að vera til og ég horfi björtum augum fram á veginn.

3 ummæli:

Íris sagði...

Gott að helgin var svona frábær hjá þér!! Það var virkilega gaman að koma í heimsókn í dag og ég sé það að ég verð að vera enn duglegri að koma með stelpurnar í heimsókn!!
Annars verð ég spenntari og spenntari að sjá hvað þú munt taka þér fyrir hendur þegar tíma þínum hjá Verkvangi líkur. Efast ekki um að þú munt gera það með glæsibrag og standa þig eins og sannri hetju sæmir!!!
Þú ert bara frábær!!

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ mamma:)
Gott hjá þér að horfa björt fram á veginn og það er spennandi hvað þú ferð að gera. Takk fyrir síðast, það var gaman að kíkja á ykkur áðan. Arnan þín:):)

Nafnlaus sagði...

Það er sko hárrétt hjá þér að föstudagarnir eru skemmtilegir! Að ég tali nú ekki um ef það er fríhelgi framundan eins og átti við um síðustu helgi :) Alltaf gaman að hafa það kósý og notalegt :) Verð líka að segja eins og Íris að ég er orðin mjög spennt að sjá hvað þú ferð að gera ;) Hafðu það langbest :) Þú ert best.. Lov U, þín Eygló