miðvikudagur, október 26, 2005

Hann á afmæli í dag, hann lengi lifi


Kalda vetrarnótt fyrir 46 árum fæddist hann á efri hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer 7 í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og 4 árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt úti- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, allavega í sveitinni. Hún tengdamóðir mín var og er hetja og vílaði ekki fyrir sér að þvo þvotta í köldum læknum komin að barnsburði. Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst, með mikið krullað, sítt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengum að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Allavega urðum við svaka góðir vinir og fórum að skrifast á og það var margt brallað þegar hann kom til Reykjavíkur um helgar. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð 17 ára trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Við giftum okkur 18 ára og í dag, 27 árum seinna, orðin afi og amma, þá finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman. Hann er besti vinur minn og í mínum huga er hann einfaldlega flottastur.

Já, hann Erling MINN á afmæli í dag, en hann sagði við mig í gær að ef ég myndi ekki minna hann á það þá myndi afmælisdagurinn hans líða hjá án þess að hann myndi muna eftir honum. Það er víst engin hætta á að ég myndi gleyma því að ég ætti afmæli.
Ég er álíka mikið afmælisbarn og hann er lítið afmælisbarn. Samt finnst okkur gaman að fá gesti og notum afmælisdaga óspart til að gera okkur dagamun og finnst gaman ef ættingjar og vinir kíkja við.
Erling minn, ég vil óska þér innilega til hamingju með daginn og vona að dagurinn verði skemmtilegur hjá þér. Allavega færðu köku í kvöld :o) Ég elska þig meira í dag en í gær og bið Guð að við fáum að njóta elliáranna saman, tvær krumpaðar sveskjur sem ganga saman hönd í hönd.

11 ummæli:

Íris sagði...

Til hamingju með daginn pabbi!!!
Hlakka til í kvöld ;)
Þín elsta dóttir
Íris

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þinn heittelskaða. Þú átt sannarlega traustann og góðan mann og það er yndislegt hvað þið eigið gott líf saman. Hlakka til að hitta ykkur í kvöld.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með kærasta kallinn þinn.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með bóndann!
kveðja
Hrafnhildur

Erling.... sagði...

Takk Erla mín fyrir fallega kveðju, og þið hin líka. Hlakka til að hitta ykkur í kvöld. Það verður á könnunni skilst mér á Erlu. Hún er vön að sjá mér fyrir einhverju svo ég verði ekki hungurmorða.
Veit ekki hvar ég væri án hennar.

Heidar sagði...

Innilega til hamingju með karlinn þinn. Sjáumst í kvöld.

Karlott sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Karlott sagði...

Töffarinn á vélafáki þaut áfram
sveitavegir undirlagðir ryki.
Trylltir hárlokkar ótamdir,
skellinöðru Erling var á ferð.

Margar þóttust fákurinn flottur
fífldjarfur sat hann við stýrið.
Þeim Barbro og Erlu buðust far
en amor kom og enn situr Erla þar.

Í sveitinni leynist meira en bara
vinna, vinna og aftur vinna.
Því á meðal hænsna, hesta, kinda
fór ástareldur af stað.

Enn brennur eldurinn og
megi bálið brenna, brenna, brenna!

Til hamingju með manninn þinn Erla.




Lokkarnir sveipluðust í vindinum,
Erla sat á trylltum sveitafáki.

Nafnlaus sagði...

Þið eruð sætust Erla mín:-)Til hamingju með gærdaginn!!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hann pabba um daginn mamma:):) Flottur pistill hjá þér... Sé ykkur alveg í anda á skellinöðrunni akandi um og hárið út í buskanum.... Svo sæt:):) Sjáumst síðar... Þín Arna lasna:(

Íris sagði...

Ógeðslega er ég leiðinleg!! Ég óska þér ekkert til hamingju með þinn mann!! Úff, fyrirgefðu mér. En allavegana, var að kíkja á kommentin og sá að ég klikkaði alveg á þessu og bæti úr því hér með!! Veislan var svo líka alveg frábær eins og alltaf þegar þú ert með partý ;) sjáumst sem fyrst!!!