miðvikudagur, janúar 25, 2012

Lifðu lífinu lifandi, vertu til, taktu þátt

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég elska lífið sjálft, enda er það dýrmæt gjöf sem okkur er gefin til þess að njóta. Lífið með öllum sínum fjölbreytileika er bara of skemmtilegt til að taka ekki þátt í því af fullum krafti. Auðvitað veit ég að það geta ekki allir gert það því stundum taka t.d. sjúkdómar af manni völdin. En það er samt oft með þá sem eru í fullu fjöri að þeir virðast bara áhugalausir um lífið og tilveruna, eru bara þarna, taka ekki þátt í neinu sem er um að vera kringum sig eru kannski alltaf að bíða eftir einhverju og þegar það er komið þá er gaman að vera til. Hamingjan er ekki endastöð heldur ferðalag og með því að vera alltaf að bíða eftir einhverju sem gerist seinna þá er svo mikil hætta á að missa af svo mörgu því hversdagurinn getur verið svo innihaldsríkur og skemmtilegur ef við bara gefum honum tækifæri. Stöldrum við og sjáum það sem er í vegi okkar, það er enginn vandi að ganga framhjá öllum fallegu steinunum (líkingamál) sem eru á vegi okkar ef við horfum alltaf langt fram í tímann. Það er samt auðvitað alltaf gaman að hlakka til einhvers og ég held reyndar að það sé nauðsynlegt að hafa eitthvað til að hlakka til eða langa að gera en þangað til það gerist er jafn nauðsynlegt að vera virkur þátttakandi í hversdagslífinu. Hafa gaman að því að vinna vinnuna sína, sjá það sem gleðiefni að það séu óhreinir diskar í vaskinum, óhreinn þvottur í þvottahúsinu, ryk á hillum því það táknar að það er líf í kringum okkur. Ef við höfum ekki vinnu þá eru ótal námskeið sem eru í boði og um að gera að nýta sér það. Tökum þátt í að gera lífið skemmtilegra, verum virk í hversdagslífi okkar, tökum þátt í samræðum, verum til, brosum til samferðarfólks okkar, heimsækjum hvert annað og látum okkur varða um annað fólk, þetta er svo stuttur tími sem við höfum á þessari jörð, notum hann. Ekki sitja ein eða einn úti í horni hvort sem er í kafftímanum í vinnunni eða í afmælum í fjölskyldunni og halda að "þau" kæri sig nú ekkert um mig eða mínar skoðanir, við erum sköpuð til samfélags við annað fólk og þínar skoðanir eiga jafn mikinn rétt á sér og allra annarra. Lifum lífinu lifandi meðan við eigum það, njótum þess að vera til, látum draumana rætast ef við mögulega getum.....já það er víst satt að Erlan elskar að vera til

Engin ummæli: