miðvikudagur, febrúar 15, 2012

Sara Ísold afmælisstelpa



Það er ekki ofsögum sagt að það er líf og fjör í kringum afmælisbarn dagsins, henni liggur mikið á að verða fullorðin enda sagði hún um daginn við mömmu sína þessa setningu: "Maður verður ótrúlega pirraður þegar maður fær unglingaveikina, maður verður slappur og allt." Þó er það svo að þessi unga dama er bara átta ára í dag en vildi nú helst vera 18 því þá gæti hún flutt að heiman og fengið sér bæði hest og hund en hún skilur ekkert í því að mega ekki fá þau dýr bara strax. Já það er hún Sara Ísold ein ömmustelpan mín sem fagnar einu árinu í viðbót í dag. Ég man vel símtalið sem kom þennan fallega sunnudagsmorgunn og okkur afanum tilkynnt um fæðingu hennar. Hún er skemmtileg og skýr stelpa með ákveðnar skoðanir á öllu og er mikill heimspekingur. Henni gengur vel í skólanum og er vel liðin þar og fær frábærar umsagnir. Í hennar augum er lífið alls ekki flókið. Hún ásamt systrum sínum er viku og viku hjá pabba sínum og svo mömmu sinni og núna eiga þær systur von á lítilli systur hjá mömmu sinni og Hafþór pabba. Henni finnst auðvitað ekki réttlátt að litla systir þurfi svo alltaf að vera bara hjá foreldrum sínum og fái ekki að fara neitt annað þannig að hún er búin að segja pabba sínum að auðvitað þurfi hann svo að taka litlu systur stundum þegar Arna og Hafþór verða þreytt. Svo var það fyrir stuttu að það barst í tal að þær væru líka sænskar og Sara Ísold hafi nú einhverjar áhyggjur af því að litla systir væri ekki líka sænsk en var svo snögg að finna lausnina því Doris, föðuramma þeirra, myndi auðvitað kenna litlunni sænsku. Um að gera að vera ekki að flækja málin neitt.






Elsku Sara Ísold okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, við vitum að það verður dekrað við þig í dag. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig marga marga hringi.

Engin ummæli: