miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Hvaða stefnu?

Mér finnst nú hálf ótrúlegt að eftir aðeins 4 vikur verði kominn aðfangadagur jóla. Ég er örugglega ekki ein um að finnast við nýbúin að ganga frá jólaskrautinu og var það þó gert í fyrstu viku janúarmánaðar eins og vera ber. Hins vegar er ég alltaf mjög spennt fyrir jólunum og hlakka mikið til þeirra. Jólin eru táknmynd upp á fæðingu frelsarans og þeim fylgir svo mikil gleði og friður. Kannski ætti ég að segja að þeim ætti að fylgja gleði og friður því það er ekki alltaf svo alls staðar. Því miður er alltof mikið um að fólk týni þessari gleði og þessum sanna jólafriði í öllum látunum við að kaupa jólin.

Í dag sem aldrei fyrr er mjög nauðsynlegt að njóta þessa tíma sem framundan er. Eftir allt sem gengið hefur yfir íslenska þjóð undanfarnar vikur þurfum við að staldra aðeins við og átta okkur á hvað það er sem við viljum. Eigum við að halda áfram að vera reið, pirruð, ergileg, vonlaus og allt það eða taka ákvörðun um að láta ekki kringumstæður þrykkja okkur niður heldur horfa fram á veginn. Amma mín sem er dáin fyrir mörgum árum sagði einu sinni við mig að þegar við ættum ekkert nema tvær tómar hendur, væri það besta sem við gerðum við þær, að leggja þær saman í bæn til Guðs.

Í fyrradag var ég að keyra til borgarinnar og í baksýnisspeglinum sá ég sólarupprásina, svo fallega og yndislega. Mér varð hugsað til landsins míns, náttúrunnar og alls þess sem Guð hefur skapað og gefið okkur. Þetta er allt á sínum stað okkur til yndis og ánægjuauka. Landið þar sem við fáum hreint vatn bara með því að skrúfa frá krananum heima hjá okkur. Í Ameríku voru margir sem spurðu okkur hvaðan við værum og einn sagði við mig, ummm eruð þið frá Íslandi þar sem maður fær gott vatn beint úr krananum. Íslenskar afurðir eru frábærar og þær eru á sínum stað eins og svo margt annað.

Ég hvet ykkur lesendur mínir til að njóta daganna og eyða ekki orku í ergelsi og pirring. Við erum engu bættari með því nema síður sé. Vissulega hefur fjármálaumhverfið og atvinnuumhverfið breyst ískyggilega hratt og ég geri ekki lítið úr þeim erfiðleikum. Það er ömurlegt að missa vinnuna og heimili sitt en það má samt ekki gleyma því að það er líf eftir gjaldþrot. Reynsla áranna hefur kennt mér að það er alveg hægt að setja sig á þann stað að vera ánægður með sitt, hverjar sem kringumstæðurnar eru. Það þarf bara að sníða sér stakk eftir vexti.

Setjumst niður með börnunum okkar, líka þessum fullorðnu, tölum saman, eigum tíma saman, styðjum hvert annað og sýnum hvert öðru ást og umhyggju. Heimsækjum þá sem eru veikir, gefum af tíma okkar, gefum börnunum jólagjafir og sleppum þeim fullorðnu ef veskið er létt. Það þarf ekki endilega að eyða svo miklu í gjafirnar því börn eru alltaf börn og flest telja hvað þau fá marga pakka en eru ekki að reyna að finna út hvað þeir kostuðu. Verndum börnin fyrir of miklu krepputali, litlar sálir eru svo viðkvæmar og geta heyrt allt annað en sagt er og það valdið þeim miklum óþarfa áhyggjum.

Svo er þetta spurning um hver ætlar að vera fyrstur til að bjóða okkur Erling heim í heitt jólasúkkulaði með þeyttum rjóma????? Ég mun líka bjóða þeim sem kíkja á aðventunni uppá heitt súkkulaði, keypti fullt af Bónus suðusúkkulaði áðan og bráðum fáum við hluta af afla sumarsins úr reyk :o)

Ég er glöð og horfi björtum augum fram á veginn, hef séð það svartara í mínum persónulegu fjármálum og ratað út úr þeim hremmingum. Þangað til næst.....

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sko... ég var að enda við að renna niður dásamlegu heitu súkkulaði með rjóma og ekki í fyrsta sinn þennan nóvember mánuð. Með þessu bauð ég upp á þrjár sortir af smákökum þannig að hér með býð ég ykkur í heitt súkkulaði og smákökur, þið ráðið hvenær. Hlakka til að sjá ykkur :-)
gf

Erla sagði...

Takk fyrir boðið og ég tek þig á orðinu kæra vinkona, hringi og mæli okkur mót við ykkur. Kv Erlan

Unknown sagði...

Pick me pick me...ooohh ég var ekki fyrst.

Elsku Erla og Erling þið eruð velkomin í smákökur og súkkulaði hvenær sem er. Á aðventunni er eitthvað að hjá mér ef ég á ekki súkkulaði og rjóma.

Svo er SÚKKULAÐIDAGURINN þann 14. desember á Herragarðinum.

Þú ERT frábær, Uppáhalds elsta systir mín
Þín einasta eina Herragarðsskvísa

Eygló sagði...

Svo er ykkur boðið í heitt súkkulaði og heimabakaðar smákökur með meiru 13.des :) Hlakka svoo til að fá ykkur í jólaboð til okkar :)
Verður alveg massa gaman og notalegt! :)
Heldurðu að þú verðir nokkuð orðin leið á heitu súkkulaði og small cakes??