sunnudagur, október 19, 2008

Rólegheit og góðir dagar...

Eina hljóðið sem heyrist núna í Húsinu við ána er í þvottavélinni en hún er að vinna verkin sín. Ég hef verið ein heima alla helgina fyrir utan að Hrund kom heim í nótt úr Reykjavík en er farin aftur til borgarinnar. Erling og Hlynur eru á Fitinni í sinni árlegu bræðraferð. Þótt ég elski fólkið mitt meira en orð fá lýst þá finnst mér líka gott að eiga tíma bara með sjálfri mér. Smá tími í gær fór í tiltekt á húsinu og svo skrapp ég aðeins í kaffi til Tedda og Kötu, alltaf gaman að kíkja við hjá þeim og þegar ég var nýkomin þaðan var bankað og úti voru Christina og Auja, vinkonur mínar úr Fljótshlíðinni. Við áttum saman skemmtilegt samfélag áður en þær héldu svo heim á leið. Aldrei þessu vant kveikti ég á sjónvarpinu og horfði á Skjá einn fram á nótt. Sá m.a. einn leiðinlegasta þátt sem ég hef séð, Singing bee, úff skil ekki hvernig ég nennti að horfa á hann allan...

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Auðvitað fylgist ég með umræðunni í þjóðfélaginu en læt ekki bölmóð og svartsýni hafa áhrif á mig. Það eru mörg tækifæri í þessu skrýtna ástandi á landinu okkar fagra og um að gera að nota þau. Ég er stolt af þjóðerni mínu þótt ég sé ekki ánægð með framgöngu þessara ríku auðmanna sem hafa komið okkur í þessar aðstæður. Landið mitt er alltaf fallegasta land í heimi og enginn tekur frá mér náttúruna sem blasir við út um gluggann minn, yndislegu sólarupprásina á morgnana eða tunglskinið sem speglast svo fallega í ánni seint á kvöldin. Það tekur heldur enginn frá mér ástina eða fjölskylduna mína og það er það sem mestu máli skiptir í þessari orrahríð. Það kostar ekkert að brosa til samferðamanna minna, vera hughreystandi og uppörvandi eins og kostur er. Ég veit að bakvið skýin er sólin og að öll él birtir upp um síðir. Á veturnar verður stundum ófært vegna snjókomu og óveðurs og þá er bara að vera rólegur heima við og bíða af sér veðrið og svo koma snjóruðningstækin og moka frá og leiðin verður örugg og greið. Það sama gildir núna, sumar leiðir eru ófærar og við getum ekki farið allt sem við viljum eða gert allt sem við viljum en við skulum bara vera róleg þangað til leiðir opnast og við getum haldið ferðinni áfram.

Að allt öðru, um síðustu helgi fluttum við Erling dótið okkar yfir í stærri kofann á Föðurlandi og það var bara gaman. Auðvitað er ekki allt orðið eins og við viljum en samt vel íveruhæft. Erling er búinn að tengja kamínuna og mikið var notalegt að sitja í sófanum og horfa á eldinn leika sér innan við glerið. Hansi, Auja, Gylfi og Christina kíktu á okkur og laugardagskvöldið var svo skemmtilegt í góðra vina hópi. Við fórum svo heim í hádeginu á sunnudegi því við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í heimsókn, það var svo langt síðan við höfðum verið öll saman en við Erling leggjum mikið upp úr samfélagi við krakkana okkar. Lítil stúlka, Erla Rakel, aðeins 7 daga gömul var þá að fara í sitt fyrst ferðalag austur yfir fjöllin tvö, gaman að þvi.

Framundan er svo skemmtilegt síðdegi hjá mér, ég á von á Erling heim á eftir með allan veiðiaflann og svo er heil vinnuvika framundan með öllum sínum tækifærum og upplifunum. Njótið daganna lesendur mínir og munið að allt það besta í lífinu er ókeypis.......Þangað til næst

1 ummæli:

Eygló sagði...

Er fólk bara alveg hætt að kommenta?? Skemmtilegur pistill hjá þér og mikið var gaman að heimsækja ykkur á sunnudeginum góða þegar Erla Rakel var vikugömul :) Við hlökkum til að koma næst!
LU, Eyglóin þín