sunnudagur, júlí 20, 2008

Frábærir dagar....

Suma daga hefur mér fundist alveg við hæfi að loka skrifstofunni vegna veðurs sem hefur svo sannarlega leikið við okkur Íslendinga í sumar. Reyndar er það svo frábært á mínum vinnustað að það er lokað á föstudögum yfir sumarmánuðina nema ef 1. eða 15. ber upp á föstudag en þá þurfum við að sinna launum og staðgreiðslu fyrir fyrirtækin okkar. Þar sem það var bara 18. júlí síðasta föstudag þá var ég heima og eftir hádegi þar sem við Erling sátum úti á palli hér við Húsið okkar við ána þá litum við á hvort annað og sögðum í kór; “Spánn hvað?” Sólin, hitinn, heiður himinn, árniðurinn og svo frábær félagsskapur bæði hvors annars og Hrundar ásamt gesta sem glöddu okkur, það er bara ekkert sem jafnast við svona daga.

Eins og lesendum mínum er kunnugt þá var von á afabarni hjá honum Tedda bróður og Kötunni hans. Thea og Hrund eru óaðskiljanlegar vinkonur og þar sem ljóst var að Thea myndi annast litla drenginn sinn ein þá sagðist Hrund bara taka að sér að verða “pabbi” hans, það yrði nú ekki mikið mál. Hrund hefur svo sannarlega reynst henni vel alla meðgönguna og farið með henni í sónar, glaðst með henni og lánað henni öxl þegar á þarf að halda. Það er svo gaman að fylgjast með þeim frænkum og ómetanlegt hvað þær geta verið eins og heima hjá sér báðar, hvort sem þær eru hér eða heima hjá Tedda og Kötunni hans. Báðar alveg yndislegar og miklir gleðigjafar.

Á föstudaginn fóru svo allar stelpurnar okkar Erlings saman á Fitina og Hrund ætlaði að koma heim í gær til að fara að vinna en þær hinar ætluðu að vera þangað til í dag.
Klukkan rétt rúmlega átta í gærmorgun, hringdi svo síminn á náttborðinu mínu og þegar ég var búin að svara með minni mjög svo syfjuðu röddu heyrðist hinum megin: “Ég er orðin “pabbi”, er á leiðinni til Selfoss með Örnu, viltu koma með okkur að sjá hann? “
Þar sem ég var enn hálfsofandi þá sagði ég bara nei nei, sé hann bara seinna og lagði á.
Svo vaknaði ég almennilega og dreif mig á fætur (Erling auðvitað kominn niður) og þá hringdi Teddi og sagði mér fréttirnar sem ég vissi. Þá spurði hann mig hvort ég vissi hvað hann héti. Auðvitað hafði mér láðst að spyrja að því svo það var stoltur afinn sem sagði mér að litli fallegi drengurinn sem væri í fangi hans héti Theodór Ísak Theuson og það var ekki laust við að ég heyrði hvað hann var klökkur og glaður. Auðvitað fórum við Erling strax að kíkja á prinsinn og það var engu logið með fegurð hans eins og þið sjáið hér fyrir neðan. Ég vil nota tækifærið og óska okkur öllum innilega til hamingju með litla prinsinn og bið honum margfaldrar Guðs blessunar.









Eftir hádegi í gær var svo stefnan tekið til höfuðborgarinnar því það var líka gleðidagur í lífi Sirrýjar systur minnar og hennar fjölskyldu. Brúðkaup Snorra og Ingu Huldar fór fram í Fríkirkjunni í Reykjavík og sólin lék við þau og gladdi og auðséð að brúðhjónin voru alsæl og nutu dagsins í hvívetna. Veislan var svo haldin í Félagsheimili Fóstbræðra við Langholtsveg. Ég vil líka óska þeim öllum innilega til hamingju með daginn og bið brúðhjónunum Guðs blessunar.
Við fórum úr veislunni aðeins áður en henni lauk því við vorum búin að plana að fara upp á Skaga til vina okkar þar, Barbro og Sigga. Erling hafði komið í bæinn á mótorfáknum sínum og við brunuðum heim til pabba og mömmu og höfðum fataskipti, úr veisluklæðum í leðurgallana og settum á fákinn og ókum af stað með vindinn í fangið. Þetta var svoooo gaman, á Skaganum klæddu vinir okkar sig í sinn galla og við fórum með þeim í hjólatúr og áttum svo skemmtilega stund með þeim heima í stofunni þeirra. Við fjögur höfum alltaf verið vinir, við Barbro síðan við vorum 11 ára og svo bættust þeir Erling og Siggi við bara aðeins seinna. Þau eru svo sannarlega frábærir og traustir vinir.

Klukkan var farin að halla í miðnætti þegar við stigum á fákana á heimleið og þegar við komum til Reykjavíkur til að sækja bílinn sem ég hafði keyrt til Reykjavíkur fyrr um daginn þá langaði mig að hjóla alla leið heim með Erling svo bíllinn var bara skilinn eftir í höfuðborginni þar sem hann bíður mín þegar ég kem að vinna á morgun.

Já þetta er svo sannarlega frábærir og skemmtilegar dagar og ég ætla að halda áfram að njóta þeirra og vona að þú lesandi góður gerir slíkt hið sama....þangað til næst...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

váá skemmtilegt blogg:)

til hamingju með að vera orðin afasystir! Efast ekki um að það sé gaman:)
Ekki skemmir fyrir að bróður-afabarnið þitt sé svona svakalega fallegt:)

Síjú sún!
-Hrund

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með alla þessa viðburði í fjölskyldunni þinni:):) Ekkert smá gaman. Theodór Ísak er algjört æði:) Skemmtilegar myndír Arnan

Eygló sagði...

Elsku sæta mamma mín, til hamingju með nýja titilinn, orðin afasystir! Ekkert smá gullfallegur litli Theodór Ísak :)
Þú ert æðibiti annars! Og takk fyrir samveruna í bæjarferðinni okkar áðan :)
Kveðja úr rigningunni, Eygló