miðvikudagur, apríl 16, 2008

Komin heim

Meiriháttar upplifun þarna við pýramídana

Það verður að segjast að Egyptalandsferðin okkar fór langt fram úr okkar vonum og væntingum. Við vorum heppin með ferðafélaga, fararstjórinn var frábær og einnig nemandinn hennar sem mun taka við að stýra þessum ferðum. Það að sjá staðinn þar sem álitið var að Móses hafi fundist í sefinu í Níl, bogra eftir þröngum göngum niður í pýramída, ganga langt inn í fjall inn í grafhvelfingar, fara á úlfaldabak og vera næstum dottin af baki, Erling bjargaði mér algerlega, veit ekki hvernig hefði farið ef hann hefði ekki náð að grípa mig og vera nógu sterkur til að halda mér, horfa á sólarupprásina yfir Níl úr loftbelg, heimsókn í þorp innfæddra, sitja á kaffihúsi og horfa á sólina setjast yfir eyðimörkinni, sigla upp Níl og horfa á mannlífið á árbakkanum þangað til pálmatrén virtust svört því sólin var að setjast bak þau.
Takið eftir fuglunum
Sitja uppi á þilfari um miðnætti, bara við tvö ein og horfa á borgarljósin eða innfædda á leik þegar það var nógu svalt að þeirra mati.

Þvílík upplifun, algerlega magnað, ómótstæðilegt, ótrúlegt.
Svona gæti ég lengi talið upp en við erum að setja dagbókina okkar á tölvutækt form og munum birta hana að einhverju eða öllu leyti hér í bloggheimum. Mér fannst ég vera í nýju ævintýri á hverjum degi, magnað að upplifa söguna drjúpa af hverju strái, sjá öll þessi ævafornu listaverk út um allt, skemmta sér á kvöldin í leikjum á skipinu, finnast maður vera drottning enda komið fram við mann sem slíka. Allt skipulag var til fyrirmyndar og ég mæli með Bændaferðum ef fólk vill upplifa öðruvísi ferðir.

Þessi var lifandi en ég kyssti hann nú ekki í alvörunni :o)

Það er frábært að hafa tækifæri til að ferðast en best af öllu er að koma heim og hitta fólkið sitt sem er það dýrmætasta sem maður á. Að sjá litlu dömurnar okkar fagna okkur þegar við vorum komin heim, knúsið frá þeim er mér algerlega ómetanlegt. Erling Elí tók okkur með meira jafnaðargeði enda bara 10 mánaða.

Við tókum um 2.500 myndir í ferðinni þannig að ef þið hafið löngun og tíma, endilega kíkið við hér í Húsinu við ána....alltaf kaffi á könnunni.

4 ummæli:

Íris sagði...

Gaman að fá ykkur aftur heim heil á höldnu! Hlakka mikið til að koma og skoða myndirnar! Verður samt eflaust ekki fyrr en eftir próf!
Sjáusmt
Íris

Nafnlaus sagði...

Tek undir með sætu systur minni, það er æði að fá ykkur heim aftur. En alveg frábært hvað þetta var mikið ævintýr fyrir ykkur pabba. Alveg magnað bara. Þú ert æði, Arnan þín:)

Hrafnhildur sagði...

Velkomin heim! Það er auðséð(heyrt) að þetta hefur verið einstök ferð. Hlakka til að heyra meira.
Kveðja úr Mos.

Nafnlaus sagði...

Það var mjög gaman að rekast á þig í dag Erla mín, nú skulum við vera duglegar og gera alvöru úr því að hittast. Ég verð í sambandi við þig eftir helgi, er að syngja á tónleikum á sunnudag með kórnum mínum, Kammerkór Langholtskirkju og þegar það er búið langar mig að koma á hittingi. kærar kveðjur, Kristbjörg http://www.kibbac.blog.is/blog/kibbac/