laugardagur, mars 31, 2012

Marta Líf eins árs afmælisprinsessa



Það er alveg hreint ótrúlegt að það skuli vera komið heilt ár síðan litla (ekki samt minnsta :) ömmustelpan mín ákvað að skjótast í þennan heim á "Saga class" eins og mamma hennar orðaði svo skemmtilega. Ég var búin að fara í bæinn og sækja systkini hennar því það var ljóst að daman var um það bil að fara að láta sjá sig. Það var svo snemma kvölds sem Íris hringdi og spjallaði fyrst við eldri börnin sín og sagði okkur svo frá að daman hefði verið tekin með bráðakeisara en allt gengi vel og að þeim mæðgum heilsaðist vel. Hún fékk strax nafnið Marta Líf og er alger gleðigjafi inní líf okkar allra. Hún er alltaf svo brosandi og kát og yndisleg að það er enginn vandi að heillast algerlega af henni.

Stóru systkini hennar eru dugleg að leika við hana og eldri systurnar passa hana af kostgæfni.

Hún er dugleg stelpa og fer vel fram og hún er svo heppin að mamma hennar gat lengt fæðingarorlofið og unnið heima við svo sú stutta nýtur lífsins í dekri og þægindum.

Elsku litla yndigull, við afi þinn óskum þér til hamingju með daginn og hlökkum til að koma í afmælisveisluna þína. Við elskum þig endalaust litli gleðigjafi og hjartabræðari.

Engin ummæli: