miðvikudagur, október 26, 2011

Hann á afmæli í dag




Kalda vetrarnótt fyrir 52 árum fæddist hann á eftir hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer sjö í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og fjórum árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt út- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, alla vega í sveitinni.

Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst með mikið krullað sitt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengur að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð sautján trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Í dag, 33 árum seinna finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman.

Afkomendahópurinn stækkar stöðugt, dæturnar eru fjórar, tengdasynirnir þrír, barnabörnin eru níu og eitt á leiðinni.

Já hann Erling minn fagnar í dag afmælinu sínu í 52. sinn. Síða krullaða hárið hefur að vísu löngu sagt skilið við hann og vangarnir eru orðnir eilítið silfraðir, barnabörnin okkar halda því reyndar fram að afi þeirra sé ekki með hár :) en þessi sjarmör nær ennþá að heilla ömmu þeira algerlega upp úr skónum. Ég er ákaflega stolt af honum, elska hann meira en hægt er að lýsa í fáum orðum og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman svo við getum gengið saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.




Engin ummæli: