þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Íris afmælisstelpa

Það er alveg með ólíkindum hvað tíminn æðir áfram. Eins og hendi sé veifað þá eru liðin 33 ár síðan við Erling fengum frumburðinn í hendur. Yndisleg lítil stúlka sem lét samt bíða eftir sér í hálfan mánuð en sú bið var fljót að gleymast þegar hún var komin. Mamma mín sagði að ég væri heppin að hafa eyrun til að koma í veg fyrir að höfuðið klofnaði við brosið sem var fast á andliti mínu þegar hún kom að sjá fyrsta ömmubarnið sitt.


Íris hefur alltaf verið sjálfstæð og dugleg stelpa og lét ekki viðteknar venjur ákveða neitt fyrir sig og það voru löggu og bófaleikir frekar en barbí þegar hún var lítil stelpa. Reyndar var ég alveg viss um að ef hún myndi einhvern tímann eignast dóttur eða dætur þá yrðu þær aldrei klæddar í bleik föt en sú varð þó ekki raunin því dætur hennar þrjár eru oftast í bleiku og sonurinn í ekta strákafötum. Íris og Karlott maðurinn hennar eru einkar samhent hjón og eru dugleg að eyða tíma með börnunum sínum fjórum og skapa skemmtilegar minningar fyrir þau í minningarbankann. Hún er alger snillingur í kökugerð og hefur gert margar flottar kökur við hin ýmsu tækifæri og má þar nefna brúðartertu sem hún gerði um daginn fyrir brúðkaup Örnu systur sinnar og Hafþórs. Hún er núna í fæðingarorlofi en hún starfar sem lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra og unir sér vel þar.


Elsku Íris mín, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að þú verður dekruð og mundu að við elskum þig marga marga hringi, allan hringinn, þú ert okkur afar dýrmæt Guðs gjöf og einn af augasteinunum okkar.

Engin ummæli: