mánudagur, september 22, 2008

Haust

Þær brostu að mér í vinnunni í dag þegar ég kvaddi þær rétt fyrir kl fjögur og þaut út. „Bless, Erla barnapía“ sögðu þær enda óvanar því eins og ég sjálf að þurfa allt í einu að hendast út til að gleyma ekki að sækja börnin á réttum tíma. Það tókst samt, ég var komin í skólann til Daníu Rutar rétt rúmlega hálffimm og þá búin að sækja hinar dömurnar í leikskólann. Arna og Hrund fóru sem sagt á mót til Toronto og litlu dömurnar verða hér hjá okkur þessa viku og þær sögðu mér áðan systurnar að mamma þeirra hefði farið til útlanda til að ná í nammi handa þeim. Enda hvað ætti hún svo sem að vera að gera annað en einmitt það. Þegar þær voru svo loksins komnar í háttinn og ég var að byrja að biðja með þeim þá spurði Sara Ísold hvort hún mætti gera söður (ekki stafsetningarvilla hún sagði söður) og heilags anda og byrja á Daníu Rut því hún væri elst. Leyfið fékkst og hún þaut uppúr rúminu að systrum sínum og laut yfir þær og signdi þær. Þvílíka krúttið.

Það má segja að hver árstími hafi sinn sjarma þótt auðvitað eigum við öll okkar uppáhalds árstíð. Mitt uppáhald er vorið og svo sumarið en aftur á móti en haustið svo rómantískur tími. Ég er gjörn á að byrgja mig upp af kertum á þessum árstíma og veit fátt notalegara en sitja í stofunni með kertaljós og félagsskap af fólkinu mínu og vinum. Á haustin er maður líka duglegri í alls konar félagslífi, saumaklúbburinn minn byrjar og mér þykir svo vænt um stelpurnar sem eru í honum enda er þessi saumaklúbbur svo gamall að við vitum ekki einu sinni réttan aldur hans. Við Erling erum nokkuð dugleg að fara á tónleika og í leikhús og er svolítið framundan í þeim efnum. Við reyndar horfum nánast ekkert á sjónvarpið, okkur báðum finnst það tímasóun en ég hef samt ekkert á móti sjónvarpi, fínt fyrir þá sem nenna að horfa á það. Ég vil frekar horfa á mynd á dvd þegar mig langar til þess.

Það styttist mjög í að stærri kofinn á Föðurlandi verði íveruhæfur og ég hlakka ekkert smá til þess að sitja þar í notalegum kúrusófa, með snarkandi eldinn í kamínunni sem við fengum á Barnalandi á ótrúlegu verði. Við höfum ekki farið í frí saman síðan við fórum til Egyptalands í apríl en erum staðráðin í að vera þar í nokkra daga núna seinni partinn í október.

Já lífið er skemmtilegt en við söknum auðvitað Hrefnu og það er skrýtið að keyra framhjá Vífilstöðum og eiga ekki erindi þangað. Þótt hún hafi verið orðin veik og ekki alltaf þekkt mig þegar ég kom þá gat maður samt kíkt við, haldið í hendina hennar og sagt henni hvað var að gerast í lífi okkar Erlings. Hún var límið sem hélt krökkunum hennar saman og nú er svo mikilvægt að við höldum merki hennar á lofti. Ég held að fátt hafi henni fundist betra en vita af krökkunum sínum saman, allavega vorum við aldrei of mörg í einu hjá henni í Kotinu forðum daga.
Njótum alls þess góða sem lífið hefur uppá að bjóða, látum ekki krepputal fjölmiðlanna þrykkja okkur niður. Þangað til næst lesendur mínir....

fimmtudagur, september 11, 2008

Karlott er 33ja ára í dag, hann lengi lifi........


Eins og ég hef oft sagt ykkur þá er ég svo heppin að vera ættmóðir margra og ég er líka svo heppin að eiga vináttu fólksins míns og fyrir það er ég mjög þakklát. Í stórri fjölskyldu eru því auðvitað oft afmæli og í dag á annar tengdasonur minn og vinur afmæli. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk fyllir eitt árið í viðbót og á því er engin undartekning núna.

Karlott er einstaklega ljúfur og góður strákur og er vel liðinn hvar sem hann kemur. Hann er forfallinn veiðidellukall eins og tengdapabbi hans og svili og mér finnst frábært þegar við erum öll samankomin og þeir „kallarnir“ eru uppteknir við veiðisögur og fleira því tengt.

Karlott og Íris eiga þrjú yndisleg börn saman og þau eru einstaklega samhent í öllu er viðkemur heimilishaldi og uppeldi á börnunum.Karlott nýtur einnig mikillar hylli á vinnustað sínum, Landsbankanum og eru bæði yfirmenn og samstarfsfélagar mjög ánægðir með hann og stendur hann sig með stakri prýði.

Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið Guð að blessa þig ríkulega. Við Erling erum stolt af þér. Sjáumst sem fyrst....