laugardagur, apríl 29, 2006

Ábyrgð eða ábyrgðarleysi - okkar er valið

Heilsan og heilsufar hefur verið ofarlega í huga mér síðustu daga. Góð heilsa er ekki sjálfsögð og sá sem missir hana missir mikið. Ég sá í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum viðtal við heiðursborgara Ísafjarðarkaupstaðar, frú Ruth Tryggvason, 85 ára gamla konu og var hún við afgreiðslu í Gamla bakaríinu en þar vinnur hún frá 9 á morgnana til 6 á kvöldin. Hún var hress og kát og naut þess virkilega sem hún var að gera. Mér fannst þetta ótrúlegt, ég sem hef verið að segja við Erling að mér finnist of mikið að vinna frá 9 til 5!!!!

Frú Ruth gæti hins vegar ekki unnið svona eða verið svona hress nema vegna þess að hún er svo lánsöm að vera heil heilsu meðan, því miður, alltof margir jafnaldrar hennar og þaðan af yngra fólk er löngu dæmt úr leik vegna heilsuleysis.

Heilsan fæst ekki keypt, jafnvel þótt maður ætti öll heimsins auðævi, en við getum haft heilmikið um það að segja hvort við höldum henni. Auðvitað eru margir sjúkdómar sem enginn getur ráðið við hvort hann fær eða ekki, en það eru líka margir sjúkdómar sem við getum komið í veg fyrir með því einu að lifa heilsusamlegu lífi.

Ef ég tala aðeins út frá sjálfri mér þá hef ég í gegnum tíðina sýnt alltof mikið ábyrgðarleysi gagnvart eigin heilsu þrátt fyrir að mitt heilsufar sé alls ekki mitt einkamál heldur skiptir hún fjölskyldu mína líka heilmiklu máli. Það að leyfa sér að vera alltof þungur svo árum skiptir er ekkert annað en ábyrgðarleysi því með því bjóðum við heim hættunni á alls kyns sjúkdómum s.s. hækkuðum blóðþrýsingi, áunninni sykursýki, ýmsum hjartasjúkdómum svo fátt sé nefnt. Ég las líka fyrir nokkrum dögum að of feitar konur séu í meiri hættu að fá brjóstakrabbamein en aðrar konur.

Ég er nú svo lánsöm að vera heilsuhraust ennþá fyrir utan að vera komin með hækkaðan blóðþrýsing sem má örugglega rekja til þess að ég er alltof þung. Ég hef hins vegar ákveðið að taka nú í taumana á mun róttækari hátt en áður og fara að sýna ábyrgðarfulla hegðun á lífi mínu, bæði mín vegna og fjölskyldunnar minnar vegna.

Það að fara eftir aðferðarfræði þess sem setti saman danska kúrinn, er mín meðferð og mitt “læknisráð” til að verða heilbrigð. Ég er nokkuð viss um að þeir sem þjást af alvarlegum sjúkdómum þætti danski kúrinn auðveld meðferð, ef það nægði þeim til að sigrast á sjúkdómi sínum. Allar þær konur sem koma fram á síðum “stelpublaðanna” og segja frá frábærum árangri við að ná tökum á ofþyngdinni eiga a.m.k eitt sameiginlegt. ÞÆR GÁFUST EKKI UPP. Þær hafa án nokkurs efa upplifað það að nenna þessu ekki, hella sér bara aftur út í sukkið og hætta, en verið nógu ábyrgðarfullar til að leyfa sér ekki slíka hegðun.

Ég og þú berum ábyrgð á lífi okkar og heilsu og það er ekki okkar einkamál, því flest eigum við fjölskyldu og okkur ber að hafa hana í huga. Væri ekki sorglegt ef við myndum deyja frá þeim og þau gætu litið tilbaka og komist að því að dauðdaginn hefði kannski verið á okkar ábyrgð að einhverju leyti. Kannski hefðum við verið búin að hunsa allar viðvaranir sem líkaminn og jafnvel læknirinn var búinn að gefa okkur....?
Spáum aðeins í þessu.........!

föstudagur, apríl 28, 2006

Húrra fyrir mér.....

Jæja, þá er Viktólína loksins farin að mjakast af stað aftur, eitt kíló farið síðan ég fór að fara alveg nákvæmlega eftir danska kúrnum. Svo er ég byrjuð í smá keppni með nokkrum frábærum stelpum og hún gengur út á það hver verði fyrst til að missa 10 kíló frá síðustu viku og þetta er sem sagt fyrsta kílóið sem fer af mér eftir að sú keppni hófst.

Við ætlum svo saman út að borða þegar fyrsta er búin með 10 kíló og hún fær að borða á kostnað hinna. Ég ætla ekki að segja nöfnin hér en þær skrifa þá bara í komment hjá mér ef þær vilja upplýsa um þátttöku sína og reyndar hvet ég þær til þess því það er heilmikið aðhald ef vinir og vandamenn vita að maður er að reyna að ná árangri. Mikið hlakka ég til að fara út að borða á annarra kostnað :o) ;o) :o)

Annars er bara allt gott að frétta af mér, njótið daganna lesendur góðir,
þangað til næst........

föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar

Tekið á annan í páskum, við Hrund á bekknum "okkar" rétt fyrir neðan "Húsið við ána"

“Það er greinilega komið sumar” sagði Hrund við mig í gær, rigningin er mætt. Jú sumardagurinn fyrsti var í gær eins og þið vitið auðvitað og sumarið heilsaði okkur fallega með fullt af skemmtilegum og góðum fyrirheitum.

Ég hlakka svo til sumarsins, þetta er svo skemmtilegur tími og ég ætla að njóta hans í botn. Við munum ekki ferðast eins mikið um landið okkar fagra þetta árið eins og svo oft áður því við pöntuðum okkur ferð til Spánar í febrúar sl sem verður farin í ágúst og síðan ætluðum við líka að ferðast um landið með tjaldvagninn okkar góða en húsakaup hafa aðeins breytt þeim áætlunum og það er ekkert nema frábært. Við ætlum samt að eyða nokkrum helgum á Fitinni, sumarbústaðalandinu okkar og vera með vagninn þar.

Við fáum "Húsið við ána" afhent 1. júní og ég hlakka svo til að flytja þangað og þegar við hjónin förum að breyta því smátt og smátt eftir okkar smekk. Við stefnum á að flytja um þjóðhátíðarhelgina því Erling ætlar að mála það allt áður. Þannig að 17. júní kaffið verður í Miðtúni 22 á Selfossi fyrir þá vini og vandamenn sem koma og hjálpa okkur að flytja :o)

Svo er Erling að reyna að fá mig til að koma með sér í veiðitúr, hann vill kenna mér að njóta þess að vera við árbakkann og veiða fisk. Ekki er ég nú viss um að ég hafi þolinmæði til þess en kannski ég gefi því tækifæri, hvað finnst ykkur að ég ætti að gera?
Ég er mikið náttúrubarn og finnst Ísland fallegast land í heimi og kannski er þetta gaman.

Á annan í páskum sagði ég ykkur að ég ætlaði að brjóta loforð mitt gagnvart Erling og reyna að draga hann með mér í bíltúr austur. Hrund var ekki búin að sjá "Húsið við ána" og tími til kominn að sýna henni nýja tilvonandi heimilið okkar. Mér tókst að draga Erling með mér og ég held að hann hafi bara haft gott af því að komast aðeins út og fá ferskt loft í lungun. Hrund leist vel á húsið sem betur fer :o) Bíltúrinn var skemmtilegur og við keyptum okkur ís í Olís stöðinni eins og við erum vön að gera þegar við keyrum þar framhjá. Ég er hrædd um að danski kúrinn fari fyrir lítið ef við hættum ekki þeirri venju fljótlega.

Talandi um danska kúrinn þá viðurkennist það hér með að ég hef verið að fylgja honum eftir “með hálf hangandi hendi” en þar sem byrjunin er alltaf að viðurkenna mistök sín og misgjörðir þá geri ég það hér með og er byrjuð að fara eftir honum nákvæmlega þannig að endilega fylgist með henni Viktólínu hér að ofan og ég vona og trúi að hún fari nú að þokast hraðar til hægri.

Erling er búinn að heita mér mjög veglegum verðlaunum þegar 20 kílóa múrinn fellur og ég hlakka mjög til og það er mjög hvetjandi. Ég segi ykkur kannski seinna hvað það er.

Njótið góða veðursins og lífsins......þangað til næst

mánudagur, apríl 17, 2006

Páskar


Þessar myndir eru teknar hjá Hrefnu á Vífilstöðum á páskadag




“Þú verður að vera leiðinleg þessa dagana og ekki reyna að draga mig neitt með þér” sagði húsbóndinn á heimilinu við mig þegar páskafríið var að skella á. Ég sagði honum eins og var að ég gæti ekki verið leiðinleg því ég er alltaf svo skemmtileg :o) og hann yrði bara sjálfur að bera ábyrgð á því að loka sig inni á skrifstofu og skrifa BA ritgerð og lesa undir lokaprófin. Ég lofaði því bara að reyna ekki að draga hann neitt með mér þessa frídaga og vera dugleg að laga kaffi og bjóða honum að koma fram í frímínútur. Þetta var auðvitað sagt í léttum tón en það hefur hins vegar reynst erfitt að standa við það að draga hann ekki út í góða veðrið sem hefur að mestu glatt okkur þessa dagana.

Á skírdag var okkur boðið í fermingarveislu hjá Hlyn bróðir Erlings og Gerði konunni hans. Það var Ragnheiður, önnur heimasætan á bænum sem var að fermast og hún var mjög sæt og fín í hvítum fermingarkjól. Veislan var auðvitað glæsileg eins og við var að búast enda er hún Gerður snillingur í að gera góðar kökur og brauðrétti. Það var gaman að hitta fólkið hans Erlings og gaman að heyra hvað þau samglöddust okkur með "Húsið við ána" og ég er viss um að við eigum eftir að eiga fleira samverustundir með þeim þar heldur en hér í höfuðborginni. En aftur að veislunni. Það sem mér fannst sérstaklega gaman þar var að veislan var brotin upp með því að bróðir Gerðar, konan hans og dóttir tróðu upp með tvo gítara og eina fiðlu og þau sungu og spiluðu þekkt íslensk lög og fengu svo gesti til að taka undir með sér í síðasta laginu. Þau voru svo ófeimin og skemmtileg, mér finnst alltaf svo gaman þegar fólk þorir að vera bara það sjálft.

Páskarnir hafa verið góðir og í gær tók eiginmaðurinn sér frí frá öllu skólastússi. Ég hafði afþakkað páskaegg og langaði frekar að fá nokkra “flotta og fína” konfektmola frá Konfektbúðinni og þeir runnu ljúflega niður með kaffinu í gærmorgun. Eygló gisti hjá okkur og Erling faldi eggið hennar og Hrundar og gerði síðan erfiðar vísbendingar fyrir þær og það fór drjúgur tími í það hjá þeim systrum að leita og þurftu m.a. að fara niður í geymslugang og á fleiri skrýtna staði áður en þær gátu farið að njóta súkkulaðibragðsins.

Eftir hádegi fórum við síðan og heimsóttum Hrefnu tengdamömmu á Vífilstaði og hún var bara hress og lét vel af sér og reytti af sér brandarana. Hún er með Alzheimer sjúkdóminn en líður samt bara mjög vel.

Seinna um daginn komu svo Íris og Arna með fjölskyldurnar sínar í heimsókn og við elduðum lamb og áttum skemmtilega stund saman. Það er svo frábært að vera amma og hafa þessar litlu stelpur allt í kringum sig. Þær bræða mann algerlega með framkomu sinni, segjandi manni að þær elski mann og vefja svo litlu handleggjunum sínum um hálsinn á manni og segja að þær eigi þessa ömmu, hver haldið þið að standist svoleiðis enda fá þær allt sem þær vilja eða því sem næst.

Núna er ég hins vegar að hugsa um að brjóta loforðið mitt og reyna að draga Erling aðeins út í góða veðrið. Ég hef ekki séð "Húsið við ána" í 8 daga og finnst tími til kominn að kíkja aðeins á það. Finnst ykkur ekki allt í lagi að freista þess að draga hann frá lærdómnum sem hann er búinn að sinna síðan klukkan átta í morgun?

Bara í svona 2 tíma eða svo...........................

sunnudagur, apríl 09, 2006

Pabbi á afmæli í dag.....hann lengi lifi


Í stórri fjölskyldu eins og ég er svo heppin að tilheyra eru mjög oft haldnar afmælisveislur og það er alveg meiri háttar gaman. Við erum þannig systkinin að við sleppum ekki svona tækifærum til að hittast og í dag var einn svona dagur.
Það var ættfaðirinn hann pabbi minn sem í dag fyllir enn eitt árið og í þetta sinn í 67. skiptið.

Við vorum þvi samankomin í húsi foreldra okkar í dag systkinin og með okkur voru auðvitað makar og börn ásamt öllu þeirra föruneyti. Erling var að vísu ekki með mér í þetta skiptið þar sem stíf prófa- og verkefnaskilatörn er tekin við og verður næstu fimm vikurnar. Þetta var samt mjög skemmtilegur dagur, mikið hlegið og gert góðlátlegt grín að hvert öðru eins og vera ber. Það er skemmtilegt þegar það meiðir engan.

Pabbi var óþreytandi að bjóða okkur meira af veitingunum, sækja meira gos og spyrja hvort okkur vantaði ekki eitthvað. Eins og sjá má á okkur þá erum við dugleg að gæta þess að fá nóg að bíta og brenna og þvi voru þessar áhyggju föður okkar alveg óþarfar.

En hann er svona hann pabbi minn, alltaf að hugsa um við höfum nóg af öllu, og ber mikla umhyggju fyrir okkur. Ef við erum á ferðalagi á milli staða þá fylgist hann með að við séum komin á áfangastað og það sama gildir um þegar barnabörnin hans eru að ferðast með sínar fjölskyldur. Hann er ekki rólegur fyrr en hann veit af okkur komin á leiðarenda. Þegar farið er til útlanda þá kemur hann og ekur uppá flugvöll og ef brottför er snemma dags þá þarf ekki að hafa áhyggjur af að sofa yfir sig því hann hringir og vekur okkur líka. Mér þykir mjög vænt um þetta og gott að vita að það er einhver sem fylgist með ferðum okkar.
Ef einhver fjölskyldufaðirinn á einhverju heimilanna er fjarverandi þá hringir hann til að athuga hvort það sé ekki örugglega allt í lagi með konuna og börnin og þá skiptir engu hvort konan er dóttir hans eða tengdadóttir og þannig á það að vera því við erum öll ein stórfjölskylda.

Elsku pabbi minn, ég vil óska þér innilega til hamingju með daginn og bið þér Guðs blessunar um ókomin ár og gangi þér vel í veiðitúrunum sem framundan eru. Það eru bara 5 vikur til 15. maí og þá verður fyrsta ferðin farin, er það ekki annnars...... :o)

Takk fyrir samveruna í dag elskurnar mínar, samvera við ykkur er mér mjög dýrmæt og meira virði en margt annað...sjáumst hress í næsta afmæli sem er bara eftir 3 daga, gaman að því..

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Selfoss heillar........

Einn af mörgum bekkjum meðfram ánni


Aðeins upp með ánni í átt að skógræktinni

Bekkurinn rétt fyrir neðan húsið okkar

Glæsilegt ekki hægt að segja annað

Þetta útsýni blasti við okkur og heillaði mig


Við fórum austur á Selfoss á sunnudaginn enda hafði ég ekki séð “Húsið mitt við ána” í alltof langan tíma. Það er enn jafn flott og mig minnti og ég er orðin mjög spennt að flytja þangað í sveitasæluna. Við tókum nokkrar myndir og þið sjáið þær hér fyrir ofan textann. Þið skiljið líklega hvað ég átti við þegar við komum þangað fyrst og stoppuðum fyrir utan húsið og áin blasti við í öllu sínu veldi. Þvílík fegurð. Petra frænka mín og Hallur maðurinn hennar ásamt börnum búa í næstu götu og ég hlakka til að kynnast þeim betur.

Við brenndum síðan austur í Kot og heimsóttum Hansa og Auju og áttum góða stund með þeim en höfðum síðan ekki tíma til að kíkja á vini okkar Gylfa og Christinu þannig að við förum bara bráðum aftur austur að kíkja á eigur okkar og vini.

Það er búið að vera mjög mikið að gera í vinnunni hjá mér enda skiladagur á virðisaukaskatti í dag og því þurfti að vera búið að skrá bókhald fyrir öll fyrirtækin okkar svo upphæðirnar myndu ligga fyrir í dag. Það tókst auðvitað.....

Erling er á kafi í ritgerðarsmíð og síðan er prófalesturinn líka að spilla fyrir honum deginum en það er samt alveg ótrúlegt að þessi þrjú ár séu að verða búin. Ég er svo ánægð hvað allt hefur gengið vel hjá honum og hvað honum finnst þetta skemmtilegt.

Jæja, ég ætla að hætta núna við Erling ætlum að skreppa og kveðja vini okkar Heiðar og Sigrúnu en þau eru að fara til Spánar til að njóta lífsins þar um páskahátiðina. Gott hjá þeim en ég er samt hrædd um að þeim leiðist fyrst þau njóta ekki nærveru okkar Erlings á meðan.........Heyrumst seinna.....