þriðjudagur, júlí 24, 2007

Hún á afmæli í dag


Danía Rut vinkona mín og elsta barnabarnið mitt á afmæli í dag og er orðin fimm ára skvísan. Hún er mjög dugleg stelpa og henni hefur farið mikið fram en eins og lesendur mínir vita þá var hún mikið veik þegar hún var nýfædd og sex mánaða var hún búin að fara í þrjá stóra uppskurði með öllu sem því fylgir. Henni finnst mjög gaman í leikskólanum og er farin að læra stafina og það gengur mjög vel.

Danía Rut er mikill hjartabræðari og það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni með orðum þegar hún kemur til mín, vefur handleggjunum um hálsinn á mér og segir mér að hún elski mig. Hún er mikill bókaormur og getur alveg gleymt sér í dúkkukróknum hér í Húsinu við ána, bara ef hún er með góða bók sem hún skoðar í krók og kima. Uppáhaldsdýrið hennar er kisa og hún á eina sem amma hennar og afi í sveitinni passa fyrir hana, það er hann Prins Mjá.
Elsku Danía Rut mín, ég vil óska þér innilega til hamingju með fimmta afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi. Ég elska þig og er Guði þakklát fyrir að hafa gefið okkur þig.

föstudagur, júlí 20, 2007

Háaloft og fleira


Þegar við Erling seldum Kidda og Ástu Hamrabergið fyrir um 4 árum síðan skildum við eftir “smávegis” af dóti á háaloftinu og lofuðum að koma bráðum og taka þetta. Á þessum fjórum árum hefur Kiddi annað slagið minnt mig á þetta og við höfum alltaf verið alveg á leiðinni. Svo fluttum við á Selfoss og þá var auðvitað orðið langt að sækja þetta svo við höfðum nú afsökun :o) Nema hvað, haldið ekki að þau séu núna búin að selja Hamrabergið og um daginn hringdi Kiddi og spurði hvað við ætluðum að gera við dótið. Ég sagði honum bara að selja háaloftið ekki með en hann var nú eitthvað að mótmæla því. Þar sem við Kiddi erum miklir vinir þá vildi ég nú hafa hann góðan og lofaði að koma. Þau voru að fara í sumarfrí vestur á Ísafjörð og okkur samdist um að við myndum tæma þetta á meðan og ég byrjaði eiginlega strax að kvíða fyrir þessu.

Í stuttu máli sagt þá skal ég aldrei safna dóti á háaloftið hér í Miðtúni, allavega ekki miklu, hahah. Við fengum stelpurnar og tengdasynina með okkur enda áttu skvísurnar nú eins og einn og einn kassa þarna uppi. Það var hrikalega mikið dót þarna og ég skil nú ekkert í okkur að geyma t.d þrjú ryðguð reiðhjól á háaloftinu.
Við vorum marga klukkutíma að þessu en reyndar var gaman að heyra í stelpunum þegar þær fundu hina ýmsu “dýrgripi” sem þær héldu að væru löngu týndir.
Þegar allt var komið niður að neðri hæð hússins þá tók hver sitt dót og öllu drasli var hent út. Ég var mjög glöð þegar ég horfði á eftir sendibílnum á leið upp í Gufunes.

Framundan er frábær helgi á Föðurlandinu okkar. Við ætlum þangað á morgun og bara njóta samverunnar við hvort annað og systkini Erlings. Samgangur við þau hefur aukist mjög eftir að við fórum að vera meira fyrir austan og það er mjög gaman.




Síðustu helgi vorum við öll stórfjölskyldan að vinna þarna. Við bárum fúavörn á bústaðinn og borðin, settum hillur og sólbekki og svo var tekið inn bráðabirgða rafmagn svo núna er hægt að vera með ísskáp og ofn til að kynda með í stað gasofnsins.


Ég hef sagt það áður og segi það enn, að það eru alger forréttindi að eiga þennan stað í sveitinni. Ég er aðeins að læra á fuglana, nöfnin og hljóðin en það gengur samt mjög hægt. Skil ekki hvernig stendur á því að svona bráðgreind kona eins og ég eigi í þessum erfiðleikum með að muna fuglanöfn og þekkja í sundur geldingahnapp og klóelftingu...........

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Mótorhjólatöffarar og geitungabú.....

Tek ég mig ekki vel út í gallanum og á hjólinu flotta?

“Ættum við ekki bara að fara til Reykjavíkur í fyrramálið og kaupa á þig mótorhjólagalla”, sagði Erling við mig síðasta föstudagskvöld. Það þurfti nú ekki að dekstra mig til þess og þegar við vorum komin heim aftur eftir hádegi þann laugardag þá höfðum við okkur til og hjóluðum svo saman austur á Föðurlandið þar sem til stóð að dvelja í nokkra daga. Ferðin austur var mjög skemmtileg, hjóluðum á svona 90 til 100 km hraða og nutum góða veðursins. Á sunnudeginum fórum við svo í hjólatúr austur á Skóga, stoppuðum við Seljalandsfoss og teygðum úr okkur og bara nutum þess að vera til á svona fallegum sumardegi. Það er allt öðru vísi að ferðast um á hjóli heldur en í bíl. Maður er jú úti og finnur til dæmis lyktina af nýslegnu grasinu og það er mjög góð lykt. Allavega, dagurinn var frábær og skemmtilegur.

Afinn og amman á mótorhjóli, algerir töffarar..

Við vorum á Fitinni í góðu atlæti þangað til í gær en þá fórum við heim á Selfoss. Sólin er búin að leika við okkur á allan hátt, algjör bongóblíða, gæti ekki verið betra.

Í síðustu viku tókum við eftir því að það var þó nokkuð af geitungum sem voru alltaf að koma á pallinn og þeir fóru alltaf niður á sama stað milli trjáborðanna. Við Erling vorum alveg viss að þeir væru að búa sér til bú þarna undir og ég var reyndar alveg viss um að búin væru allavega tvö ef ekki þrjú...... Erling hringdi í meindýraeyði svæðisins og hann kom við hér um kvöldmatarleytið, gekk um allt, barði og lamdi pallinn og skjólvegginn í kring og reyndi að fullvissa mig um að það væri ekkert bú hér, geitungarnir væru aðeins að sækja sér timbur til búgerða einhvers staðar annars staðar. Ég var nú ekki sannfærð en kunni ekki við að þræta við hann enda var hann sérfræðingurinn en ekki ég. Hann rukkaði okkur svo um 5000 kall fyrir útkallið og fór heim að grilla eins og hann sagði sjálfur frá.

Þegar við svo komum heim í gær fannst mér að umferðin um pallinn frá geitungaættinni hafði heldur aukist og Erling sagði við mig að hann væri viss um að það væri bú þarna í byggingu. Það er ekki auðvelt að sjá svona í gegnum pallinn og ekki beint áhugavert að vera að rífa hann mikið ef ske kynni að óboðnir gestir væru að gera sig heimakomna. Í stuttu máli sagt þá fann Erling samt búið með því að rýna vel á milli spýtnanna og jú, þarna hékk það beint undir fótunum á okkur, frekar mikið ógeðfelld sjón. Hvað var nú til ráða, ætti ég að hringja í kallinn og segja honum að honum hafi skjátlast og fá hann aftur með eitrið sitt eða hvað???
En hann Erling er nú alger þúsund þjala smiður og kann ráð við öllu. Rúmlega eitt í gærkvöldi, þegar allir heimilismenn búsins voru væntanlega komnir heim í hvílu, þá útbjó hann banvænan kotkteil, setti í ílát beint yfir spýtunni sem huldi búið, lét blönduna leka í eldhúsbréf sem hann setti á milli rifanna og þetta lak auðvitað niður og inn í búið. Síðan stappaði hann fast niður á pallinn og dreif sig inn. Nokkir íbúar geitungabúsins komu út, kolringlaðir og vissu auðvitað ekkert hvað þeir áttu að gera enda ekki von, þeir voru nefnilega að drepast og ég get ekki einu sinni sagt, greyin, því þeir voru svo sannarlega MJÖG óvelkomnir. Að lokum skar Erling búið niður, henti gegnvættu eldhúsbréfinu ofaná það og síðan sjóðandi vatni. Allan tímann var ég fyrir innan gluggann, mikil hetja, opnaði svalahurðina fyrir honum svo hann gæti forðað sér inn.
Það var enginn geitungur á pallinum í dag.........en ég las í Fréttablaðinu í morgun að það væri stórhættulegt að reyna sjálfur að eyða geitungabúi......

Hafið það gott vinir, ég ætla út að hjóla á morgun með Erling þegar ég er aðeins búin að skreppa í vinnuna, ég er nefnilega í sumarfríi.....þangað til næst

föstudagur, júlí 06, 2007

Eftirsóknarvert....

“Að lifa ánægður við lítinn auð
Að sækjast eftir glæsileika í stað glingurs
Fágun í stað tískufyrirbæra
Að vera verðugur en ekki aðeins virtur
Auðugur en ekki ríkur
Að læra mikið, hugsa í hljóði
Vera varkár í orðum, heiðarlegur í gjörðum.
Að hlusta á stjörnurnar og fuglana
Á smábörn jafnt sem stórmenni með opnum huga, opnu hjarta;
Láta lífsgleðina ráða ríkjum
Hafa hughrekki til athafna
Að grípa tækifærin er þau gefast;
Hafa engar áhyggjur.
Í stuttu máli, að vera í andlegum og trúarlegum skilningi
enginn meðalmaður”

Las þetta í góðri bók sem ég á og
fannst þetta lýsa manninum mínum svo vel,
Mátti til með að deila þessu með ykkur lesendur mínir,
Eigið góða og skemmtilega helgi,
það ætla ég að gera......þangað til næst

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Í sól og sumaryl......eða þrumum.....eða bæði.....

Það var skrýtið að sitja úti á palli og heyra þrumurnar sem ómuðu í loftinu. Fyrst hélt ég að þetta væri svona þung umferð stórra bíla yfir brúna en svo gat það bara ekki verið. Ég fór inn í eldhús til að gá hvort Hekla væri nokkuð byrjuð að gjósa því lætin voru þó nokkur. Þá sá ég þetta líka skrýtna skýjafar þarna austur eftir, flott var það en ólíkt því sem ég hef séð. Hitastigið var rúmlega 20 gráður í skugga og eitthvað var það í skýjunum sem olli þessum þrumum og eldingum sem gengu yfir Suðurlandið eftir hádegi í gær. Þetta var bara skemmtilegt að upplifa, svolítið útlandalegt líka.

Við Erling skruppum svo aðeins austur á Föðurland þegar hann kom heim úr vinnunni, það er svo notalegt að koma þangað. Við stoppuðum góða stund og grilluðum okkur smá mat áður en við héldum heim á Selfoss á ný. Hrund var væntanleg úr vinnu kl 10 og rétt fyrir þann tíma þá fékk ég sms frá henni; “Heldurðu að pabbi væri til í að fá sér hjólatúr út í Vallholt núna?” Sem ég var að opna smsið frá henni horfði ég á eftir pabba hennar hjóla af stað einmitt til að sækja skvísuna í vinnuna. Þeim leiðist þetta hvorugu, honum að hjóla og henni að vera aftaná. Það er líka mjög gaman. Ég er aðeins búin að prófa það. Við keyptum hjálm sem við Hrund notum saman en þar sem ég er ekki búin að fá mér skó eða hlífðarföt þá höfum við ekki enn krúsað saman útúr bænum.

Þegar þau feðgin komu svo heim þá settumst við öll út á pall, undir verandarhitarann og áttum skemmtilegt spjall saman. Erling náði í blað og penna og í sameiningu skrifuðum við niður allt sem þarf að gera hér heima, bæði innan húss og utan og svo skrifuðum við líka niður það sem okkur langar að gera en er ekki nauðsynlegt eða bráðliggur á. Þetta var nokkuð langur listi og því næst flokkuðum við þetta niður í þá forgangsröð sem við vildum hafa á þessu. Okkur fannst þetta gaman og svo verður enn meira gaman þegar hægt verður að strika yfir það sem búið er. Ykkur til fróðleiks þá var sett efst á listann að setja upp skjólgirðingu kringum pallinn úti og svo að klára alveg eldhúsið. Svo kom hitt svona í þeirri röð sem okkur fannst best.

Eftir að Erling setti upp verandarhitarann þá má segja að við endum alla daga á því að setjast út á pall, ýmist við tvö eða Hrund með okkur. Það er svo notalegt að sitja þarna og spjalla og það vill oftast verða svo að við förum alltof seint að sofa því við tímum ekki að fara inn.

Í dag er ég ein heima því Erling fór upp í Húsafell að smíða eitthvað í einhverjum sumarbústað, þannig að þið vinir mínir sem þetta lesið, kíkið bara á Selfoss, ég skal hafa gott með kaffinu handa þeim sem vilja heimsækja mig.
Njótið svo lífsins.......þangað til næst.........